Áform um uppbyggingu eiga sér langan aðdraganda

Útsýni frá hótelinu verður magnað
Útsýni frá hótelinu verður magnað

Löngum hefur Grenivík og raunar Grýtubakkahreppur mest allur, mátt teljast úr alfaraleið.  Hið mikla flóð af ferðamönnum sem heltist yfir Ísland síðasta áratuginn náði að litlu leyti hingað.  Það hefur þó gefið tækifæri og andrúm til að móta hugmyndir og ræða hvert ætti að stefna í þessum efnum.  Á síðasta kjörtímabili festist sú stefna í sessi sem mörkuð er í aðalskipulagi, þ.e. að friða Látraströnd og Fjörður fyrir uppbyggingu, en þjónusta við ferðamenn yrði fyrst og fremst í byggð, eða við byggð.

Á kreik fóru hugmyndir að mögulegum stöðum fyrir hótel og var unnið með þær áfram, m.a. með kynningu hjá Íslandsstofu.  Með nokkrum heimsóknum erlendra aðila varð ljóst að Skælan norðvestan í Þengilhöfða myndi henta betur en flestir staðir aðrir fyrir slíka uppbyggingu.  Þær heimsóknir leiddu þó ekki til frekari áforma strax en málið hélt áfram að malla og var reglulega til umræðu í sveitarstjórn.

Í byrjun apríl 2018 auglýsti Grýtubakkahreppur síðan eftir samstarfsaðila til uppbyggingar ferðaþjónustu í hreppnum, m.a. í tengslum við þyrluskíðaþjónustu.  Tveir aðilar sendu inn hugmyndir og komu í framhaldinu á fund sveitarstjórnar.  Niðurstaða sveitarstjórnar varð þó eftir yfirferð, að hvorugur aðilinn hefði skilað inn fullnægjandi tillögum.  Í niðurlagi fréttar af málinu sagði svo; 

Sveitarstjórn mun áfram vinna með þær hugmyndir sem hafa verið uppi og þrátt fyrir að ekki kæmi niðurstaða nú, hefur sveitarstjórn fulla trú á því að á næstu árum verði myndarleg uppbygging í ferðaþjónustu í hreppnum.

Skemmst er frá að segja að vinnan hélt áfram og í framhaldinu kom fljótt í ljós að öðrum aðilanum var full alvara, en hinn náði ekki að fylgja sínum hugmyndum eftir.  Það er ánægjulegt að þessi vinna hefur nú leitt til ákvörðunar um byggingu lúxushótels við Grenivík.  Stefnt er að því að fjölbreytt afþreyingarþjónusta verði byggð upp samhliða, enda mun hótelið fyrst og fremst höfða til fjölbreyttra möguleika til útivistar á svæðinu.

Sveitarstjórn hefur allan tímann lagt áherslu á að ekki verði gengið á rétt almennings til þess að njóta svæðisins og ekki er að vænta breytinga þar á.  Þannig verður áfram reið- og gönguleið kringum Höfðann og gönguleiðir upp á Höfðann skerðast ekki.  Ekki verður heldur breyting á rétti almennings til ferðalaga um Látraströnd og Fjörður.

Það er trú sveitarstjórnar að sú uppbygging sem framundan er muni skapa ný og spennandi tækifæri, jafnframt því að renna styrkari stoðum undir þá starfsemi sem fyrir er.  Þeim félögum Björgvini og Jóhanni hjá Viking Heliskiing er óskað innilega til hamingu með áfangann og velfarnaðar við uppbyggingu og rekstur í Grýtubakkahreppi.