Kvennfélagið Hlín

      hlín

Kvenfélagið Hlín var stofnað 1920 og hét fyrst Hjúkrunarfélagið Hlín enda var aðaltilgangur þess í upphafi að hjúkra sjúkum í Grýtubakkahreppi og hjálpa bágstöddum. Hugmyndin kom frá körlum í Framfarafélagi Grýtubakkahrepps en konur hrundu henni í framkvæmd. Félagið hafði hjúkrunarkonu á sínum snærum fyrstu sex árin, eftir það voru ráðnar starfskonur til að hlaupa undir bagga með öðrum konum þegar veikindi eða erfiðleikar steðjuðu að. Það fyrirkomulag hélst til hausts 1954.

Árið 1937 var nafni félagsins breytt í Kvenfélagið Hlín og þá fóru félagskonur að huga meira að því að mennta sig og styrkja með margs konar námskeiðum. Áherslan færðist jafnframt yfir í það að afla fjár með samkomuhaldi og kökubakstri og ýmsum öðrum ráðum.

Kvenfélagið Hlín hefur staðið framarlega í félags- og menningarmálum sveitarinnar í næstum heila öld og látið gott af sér leiða með ýmsu móti.