Heimaþjónusta

Samkvæmt lögum um málefni aldraðra er félagsleg heimaþjónusta veitt öldruðum sem búa heima og geta ekki án utanaðkomandi aðstoðar séð um heimilishald eða persónulega umhirðu. Þjónustan miðast við einstaklingsbundið mat á þjónustuþörf og byggist á hjálp til sjálfshjálpar. Leitast er við að skipuleggja og samhæfa félagslega heimaþjónustu með velferð og þarfir hins aldraða að leiðarljósi.

Félagsleg heimaþjónusta er veitt tímabundið eða til lengri tíma, allt eftir aðstæðum. Þjónusta fer fram á dagvinnutíma, virka daga. Greitt er fyrir þjónustuna samkvæmt gjaldskrá heimaþjónustu.

Sækja þarf skriflega um félagslega heimaþjónustu. Hægt er að nálgast umsóknareyðublað á skrifstofu Grýtubakkahrepps. Eftirtalin gögn þurfa að fylgja umsókn:

  1. Staðfest ljósrit af síðasta skattframtali viðkomandi.
  2. Ljósrit af launaseðlum umsækjanda og maka síðastliðna þrjá mánuði.
  3. Ljósrit af greiðsluseðlum almannatrygginga og lífeyrissjóða, sé um þá að ræða
  4. Læknisvottorð ef við á

Akureyrarbær sér um að skoða umsóknir og skipuleggja heimsóknir til einstaklinga.

Hægt að snúa sér beint til félagsþjónustunnar á Akureyri til að sækja um þetta mat.

Eftir að umsókn hefur borist hefur starfsmaður félagsþjónustu samband og ákveður heimsókn til að meta þörf fyrir þjónustu, í samráði við umsækjanda. Þegar mat liggur fyrir er gengið frá þjónustusamningi þar sem nánar er tilekið hvaða verkefni starfsmaður skuli inna af hendi. Heimaþjónusta felst meðal annars í aðstoð við þrif og önnur heimilistörf, aðstoð við eigin umsjá, heimsendingu matar og félagslegum stuðningi.

- Aðstoð við þrif eða önnur heimilisstörf getur meðal annars falið í sér almenn heimilisþrif og þvott. Gert er ráð fyrir að umsækjandi og aðrir heimilismenn taki þátt í heimilisþrifum eftir því sem kostur er. Aðstoð við heimilisþrif takmarkast við þau herbergi sem eru í daglegri notkun s.s. eldhús, baðherbergi, ganga, svefnherbergi, stofu og borðstofu. Þjónusta er veitt aðra hverja viku nema sérstakar aðstæður kalli á annað. Almennt er ekki veitt aðstoð við stórhreingerningar, þrif á stigagöngum og sameign, gluggatjaldaþvott, uppsetningu gluggatjalda og við að strauja þvott.

- Aðstoð við eigin umsjá felst meðal annars í aðstoð við klæðnað, lyf, mat og önnur verkefni sem ekki teljast til heimahjúkrunar. Tíðni þjónustu fer eftir þörfum og mati.

- Heimsending matar í hádegi virka daga er þjónusta ætluð þeim sem ekki geta eldað sjálfir um skemmri eða lengri tíma.

- Félagslegur stuðningur miðar að því að mæta þörfum einstaklinga og/eða fjölskyldna á ýmsa vegu meðal annars með samveru og hvatningu í þeim tilgangi að rjúfa félagslega einangrun. Félagslegur stuðningur getur einnig falið í sér aðstoð við innkaup á nauðsynjavörum. Gert er ráð fyrir að umsækjandi fari með starfsmanni í innkaupaferðir. Geti umsækjandi það ekki er hann hvattur til að nýta sér reikningsviðskipti hjá matvöruverslunum og heimsendingu matvæla og/eða lyfja. Í undantekningartilfellum er heimilt að gera samning um að starfsmaður heimaþjónustu sjái um innkaup á nauðsynjavörum. Þjónustan er að öllu jöfnu veitt vikulega.

- Innliti er ætlað þeim einstaklingum sem vegna félagslegra og heilsufarslegra aðstæðna þarfnast eftirlits eða öryggis með. Tíðni þjónustunnar fer eftir þörfum.