Ganga um Trölladal

trolladalur Leiðin á Trölladal liggur upp Grenivíkurfjallið sunnan við Grenjá og áfram út Grenjárdal út á Þröskuld sem er allhár hryggur milli Kaldbaks og Stórafjalls. Norðan við Þröskuld tekur Trölladalur við og opnast í norðurendann úti við Gil. Þegar kemur niður í dalinn utan við Þröskuld er ferðalangurinn umlukinn tröllslegum fjöllum á alla vegu, að því séð verður, í grýttu og gróðursnauðu landslagi. Smám saman opnast sýn út í Hvalvatnsfjörð og gróður verður um leið fjölbreyttari. Götur eru greiðar út að Gili. Hægt er að lengja ferðina með því að fara inn Þverdal, sem gengur vestur úr Trölladalnum, upp á Skörðin og niður í Hóls- og Bakkadal og enda daginn á Þönglabakka.