Hallsteinn

Karlfélagið Hallsteinn var stofnað í desember 2009 af 30 karlmönnum en í lögum félagsins segir að félagar geti orðið allir fullorðnir karlmenn í Grýtubakkahreppi. Tilgangur félagsins er „að vera þroskandi vettvangur góðs félagsanda og einingar og að leggja lið málefnum sem mega verða til framfara eða hagsbóta fyrir byggðarlagið og íbúa þess.“

Félagið tekur sig ekki mjög hátíðlega, menn eiga skemmtilega samveru mánaðarlega yfir veturinn á mjög óformlegum fundum. Tveir fastir liðir eru í starfsemi félagsins; að klæðast jólasveinabúningi á aðfangadag og bera út jólakort og selja pylsur og gos og sælgæti á Gljúfurárrétt. Ágóða af réttarsölunni er jafnan varið til góðra málefna.