Niðurstöður auglýsingar eftir samstarfsaðilum í ferðaþjónustu

Náttúra svæðisins hefur upp á ýmislegt að bjóða
Náttúra svæðisins hefur upp á ýmislegt að bjóða

Grýtubakkahreppur auglýsti í vor eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu ferðaþjónustu í hreppnum og samhliða afnot af landi hreppsins til þyrluskíðamennsku eftir árið 2021.

Tveir aðilar óskuðu eftir samstarfi og sendu inn hugmyndir að uppbyggingu.  Hafa báðir aðilar í framhaldinu mætt á fund sveitarstjórnar og kynnt sínar hugmyndir.

Sveitarstjórn hefur farið yfir hugmyndirnar og metið, m.a. með tilliti til þess hvort þær séu raunhæfar og líklegt að þær gangi eftir.

Niðurstaða sveitarstjórnar var að hvorugur aðili hefði skilað inn tillögum sem væru fullnægjandi til þess samstarfs sem lagt var upp með í auglýsingunni.  Málið hefur því ekki fengið niðurstöðu og engin ákvörðun tekin um framhald samnings um þyrluskíðamennsku að sinni.

Sveitarstjórn mun áfram vinna með þær hugmyndir sem hafa verið uppi og þrátt fyrir að ekki kæmi niðurstaða nú, hefur sveitarstjórn fulla trú á því að á næstu árum verði myndarleg uppbygging í ferðaþjónustu í hreppnum.