Vel heppnuð Grenivíkurgleði

Grenivíkurgleðin var haldin í þrettánda sinn 12. - 13. ágúst með pompi og prakt auk þess sem vel heppnaðir stórtónleikar voru í skólanum á föstudagskvöldinu. Þar komu fram þau Björn Thoroddsen gítarleikari og ný söngstjarna með honum, Anna Þuríður auk Stefáns Jakobssonar og Andra Ívars sem fluttu bestu lög í heimi! Dagskrá Gleðinnar var að venju þéttskipuð glæsilegum atriðum eins og ljósmyndasýningu, sundlaugarpartýi, sápurennibraut, hoppukastölum og vatnaboltum fyrir börnin auk Höfðahlaups og hestaferða. Í ár var skúraballið í Útgerðarminjasafninu haldið úti á bryggjunni á glænýjum hluta pallsins við safnið þar sem Sveitin milli sanda spilaði undir dansi. Á laugardagskvöldinu var svo heljarinnar grillveisla hreppsbúa þar sem etið var hraustlega, slegið á létta strengi með aðstoð Rúnars Freys og Jóhannesar Hauks auk Karenar Bjargar Þorsteinsdóttur uppistandara. Magni Ásgeirsson og Bergur Kárason sáu um Lautarsöng og barnaball og spiluðu einnig ásamt Ármanni Einarssyni og Val Hvanndalsbróður undir dansi fram á nótt. Sannarlega vel heppnuð gleði hjá nefndinni og kunnum við henni bestu þakkir fyrir. Fleiri myndir frá hreppsbúum hér.

Vert er að minna á aðgangseyri gleðinnar 2000 kr fullorðnir og 800 kr börn, sem leggja á inn á reikning gleðinnar: 1187-05-400800 kt. 081073-2959.