Varúð - ökumenn sýnið aðgát

Vetur í Höfðahverfi
Vetur í Höfðahverfi

Nú er rétt að ítreka þessa viðvörun sem hefur áður verið birt hér;

Með hækkandi sól eykst umferð hestamanna meðfram vegum, og nú um stundir einnig á vegum, þegar reiðvegir eru ófærir vegna snjóa.  Mest er umferðin í Höfðahverfi, bæði eru þar á ferð gestir hestaleigu og tamningamenn.

Ökumenn eru vinsamlegast beðnir að sýna aðgát og hægja vel á þar sem menn og hestar eru á ferð svo ekki hljótist af slysahætta.  Undanfarið hefur í einhverjum tilvikum legið við stórslysum þegar bílar bruna framhjá ríðandi fóki án þess að hægja hið minnsta á.  Jafnvel rólegum og öruggum hestum getur brugðið mjög ef bíll kemur þeim að óvörum á mikilli ferð, hvað þá ungum hestum í tamningu.

Þessari áminningu er ekki síst beint til ungra ökumanna sem hafa ekki enn lært að þekkja allar hættur sem búa í umferðinni, en einnig til hinna eldri, þeirra er líka að miðla hinum yngri af reynslu sinni.

Þeim bílstjórum sem sýnt hafa fulla tillitssemi ber einnig að þakka, sem betur fer eru þeir líka margir.

Sýnum öll ábyrgð í umferðinni - vörumst slysin.