- Þjónusta
- Mannlífið
- Stjórnsýsla
Á laugardaginn var formlega afhjúpað umhverfislistaverk á Gömlu bryggju á Grenivík í einmunablíðu, en hiti fór eitthvað yfir 20 gráður og hægviðri var.
Síðan Útgerðarminjasafnið á Grenivík var opnað 2008, hefur verið unnið markvisst að endurbótum á umhverfi safnsins. Útisvæðið var bætt jafnt og þétt með pallasmíði í áföngum fram til 2016. Báturinn Hermann var gerður upp í sýningarhæft ástand á aldarafmæli sínu, 2021 og í framhaldinu var Hermannsbúð byggð til að varðveita hann inni. Hermannsbúð var vígð á Grenivíkurgleðinni fyrir ári síðan.
Árið 2018 fékk Grýtubakkahreppur veglegan styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, til að gera áningarstaðinn “Þar sem vegurinn endar” og var hann vígður í júní 2019. Tengist hann safnasvæðinu og Gömlu bryggju beint. Þá stóð eftir að gera bryggjunni sjálfri til góða, steypan í dekkinu var að morkna upp og orðin varasöm yfirferðar. Ákveðið var að nýta m.a. umhverfisstyrki Hafnasamlags Norðurlands til að bæta úr þessu og einnig fékkst styrkur hjá Styrktarsjóði EBÍ í verkið. Sumarið 2024 var þekja bryggjunnar steypt og smíðaður nýr standur undir björgunarhring.
Sveitarstjórn ákvað síðan að vel færi á því að setja upp einhvernsskonar myndaramma eða monument fram á bryggjunni, enda úsýni óvíða fegurra til fjarðarmynnis og mikið myndað þar. Hugmyndir voru ræddar fram og aftur og endaði með því að Sigríður Björg Haraldsdóttir var fengin til að teikna umhverfislistaverk með beinni vísun í staðinn og söguna. Fyrirmynd verksins er sótt í stefnið á Hermanni TH 34 sem áður er nefndur og er einróma ánægja með útkomuna. Sigríði eru færðar kærar þakkir fyrir hennar góða framlag.
Verkið heitir “Sókn” og er nafnið til heiðurs sjómönnum og sjósókn frá Grenivík fyrr og síðar, en táknar einnig sókn staðarins til framtíðar. Slippurinn á Akureyri sá um að smíða verkið og tókst það svo vel að kalla má með réttu listaverk. Starfsmenn sveitarfélagsins sáu um uppsetningu þess og tengingu rafmagns, en ljós er í verkinu. Til að klára fjármögnun verksins var leitað til útgerðarfélaganna Gjögurs hf. og Frosta ehf. sem komu að lokafjármögnun með myndarlegum hætti ásamt Sænesi ehf. og loks framlagi sveitarfélagsins sjálfs.
Má segja að með þessu umhverfislistaverki sé svæðið fullklárað með sóma og eru styrktaraðilum færðar alúðarþakkir fyrir að hjálpa okkur að láta þetta verða að veruleika.
Nokkrar myndir frá laugardeginum: