Tillaga lögð fyrir landsþing af fulltrúum 20 sveitarfélaga

Ráðherra á fundi á Grenivík s.l. vetur
Ráðherra á fundi á Grenivík s.l. vetur

Fulltrúar 20 sveitarfélaga hafa lagt fram tillögu, ásamt greinargerð, til landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið verður 18. desember n.k.

Tillagan felur m.a. í sér að fallið verði frá hugmyndum um lögfestingu íbúalágmarks, en frumvarp um það efni liggur nú fyrir Alþingi.

Sjálfsstjórnarréttur sveitarfélaga, lýðræði og íbúalýðræði, eru megin stef í öllum störfum og í stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Lögfesting 1000 íbúa lágmarksstærðar sveitarfélaga fer þvert gegn þeirri stefnu.  Einnig eru áhöld um hvort það stenst stjórnarskrá og Evrópusáttmála um sjálfsstjórn sveitarfélaga.

Við eigum því von á að tillagan fái góðan stuðning fulltrúa á landsþinginu.  Sá fjöldi sveitarfélaga sem að henni stendur staðfestir einnig að stuðningur sveitarfélaga við íbúalágmark hefur verið ofmetinn í umræðunni.  Sá stuðningur kemur fyrst og fremst frá sveitarfélögum sem tillagan snertir ekki og sveitarfélögum sem telja sig hafa beinan fjárhagslegan ávinning af sameiningu við nágranna.

Það er ljóst að andstaða við þvingaðar sameiningar er mikil, einkum hjá minni sveitarfélögum en einnig meðal fulltrúa margra stærri sveitarfélaga.  Enda fer það þvert gegn hlutverki og eðli Sambands íslenskra sveitarfélaga að stærri sveitarfélög beiti sér innan þess, gegn vilja og hagsmunum minni aðildarfélaga.  Við væntum þess að þau láti af slíkum háttum og standi við bakið á lýðræði og stjálfstjórnarrétti sveitarfélaga sem löngum fyrr.  Sjaldan hefur verið meiri þörf fyrir samstöðu og einingu meðal sveitarfélaga en einmitt um þessar mundir.

Þar sem sameiningar eru skynsamlegar munu þær ná fram að ganga án þvingana.  Mikill fjárhagslegur stuðningur við sameiningar sem nú er í boði er hvetjandi, enda er töluvert að gerast í sameiningarmálum og sú þróun mun halda áfram.  Sameiningar undir formerkjum nauðungar verða hins vegar aldrei til heilla.

Styrking sveitarfélagastigsins er að sönnu mikilvægt mál en snýst um flest annað en þvingaðar sameiningar.  Svo sem um tekjustofna sveitarfélaga, tekju- og, verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga svo fátt eitt sé nefnt.  Á þeim sviðum blasir þörfin við og ber að vinna hratt að úrbótum.

Við væntum þess að alþingismenn hlusti á raddir sveitarfélaganna sem íbúalágmark snertir helst.  Sveitarfélaga sem eru almennt sjálfbær, eignalega sterk með góðan rekstur, veita íbúum góða þjónustu og sjá mikla möguleika til framtíðar.  Íbúar þessara sveitarfélaga eiga fullan rétt á sama lýðræði og aðrir.  Þegar setja á harðar þvinganir í lög þarf mjög sterk rök.  Í þessu máli er þeim einfaldlega ekki til að dreifa.