Stóri plokkdagurinn laugardaginn 25. apríl

Forseti Íslands Hr. Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú létu sitt ekki eftir liggja á Stó…
Forseti Íslands Hr. Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú létu sitt ekki eftir liggja á Stóra plokkdeginum árið 2019 og voru ungum jafnt sem öldnum flott fyrirmynd.

Stóri plokkdagurinn er á morgun, laugardag, en ef veður hamlar er tilvalið að nýta sunnudaginn einnig.  Við tökum öll þátt og stuðlum að hreinna umhverfi hjá okkur.

Frá kl. 12:00 til 16:00 á morgun verður hægt að nálgast ruslapoka fyrir plokkara í Jónsabúð.  Pokana má síðan skilja eftir í gámaskotinu á bak við Grýtu (Jónsabúð/Sparisj./hreppsskrifst.) að afloknu plokki.

Að plokka gefur fólki tækifæri á að sameina útiveru og hreyfingu sem og að sýna umhverfinu og samfélaginu kærleik í verki. Það er tilvalið í samkomubanni þar sem auðvelt er að virða tveggja metra regluna.  Að plokka fegrar umhverfið en það er víða sem náttúran er illa sett af plasti og rusli ýmiskonar eftir stormasaman vetur.

Frábær útivera og hreyfing um leið og við finnum fyrir tilgangi, sjáum árangur, eflum núvitund og gerum umhverfinu og samfélaginu okkar gott. Plokkið kostar ekkert og kallar ekki á nein tæki nema ruslapoka.

Allstaðar um landið eru öflugustu plokkararnir okkar þó löngu byrjaðir og hægt er að fylgjast með afrekum þeirra í þágu umhverfisins og samfélagsins á facebook síðu Plokk Á Íslandi

Plokk á Íslandi hvetur alla landsmenn til að láta gott af sér leiða og um leið fylgja fyrirmælum því plokkið er ráðlagður dagskammtur af hreyfingu um leið og auðvelt er að fylgja reglum samkomubanns. 

PLOKKUM Í SAMKOMUBANNI 
- Frábær hreyfing fyrir alla aldurshópa 
- Klæðum okkur eftir veðri 
- Notum hanska, plokk tangir og ruslapoka
- Hver á sínum hraða og tíma
- Frábært fyrir umhverfið 
- Öðrum góð fyrirmynd 

PLOKKIÐ ER EKKI BROT Á SAMKOMUBANNI 

Plokk á Íslandi er hópur einstaklinga sem bera virðingu fyrir umhverfinu og hafa það sem áhugamál að fara um illa hirt svæði og þrífa þar upp plast, pappa og annað rusl sem fallið hefur til frá íbúum, framkvæmdum eða þungaflutningum innan marka sveitarfélaga, á girðingum og í skurðum á víðavangi og síðast en ekki síst við strendur landsins. Hópurinn á sérsvæði á Facebook og telja meðlimir hans rúmlega 6000 manns. Þar deila meðlimir sigrum og áskorunum í umhverfismálum og þar hvetja meðlimir hvor aðra til dáða og birta myndir af rusli sem tekið hefur verið úr náttúrunni og fært á viðeigandi stofnanir.