Slys í Pharmarctica

Alvarlegt slys varð í gær í verksmiðjuhúsnæði Pharmarctica. Eldsprenging varð í vinnslurými og slösuðust tveir starfsmenn alvarlega. Þeir voru fluttir suður á Landspítala með sjúkraflugi.

Hugur okkar allra er hjá hinum slösuðu og aðstandendum þeirra, kirkjan var opin í gærkveldi þar sem fólk gat komið, kveikt á kertum og farið með sínar bænir.

Verulegt tjón varð á húsnæðinu og óvíst hvenær vinnsla getur hafist á ný. Lögreglan er í vettvangsrannsókn í dag og síðan verður tjón metið og ákvarðanir teknar um framhaldið.

Slökkvilið Grýtubakkahrepps var fljótt á staðinn og gekk vel að ráða niðurlögum eldsins. Einnig komu viðbragðsaðilar frá Akureyri, slökkvilið, lögregla og sjúkralið. Í annað sinn á nokkrum mánuðum hefur reynt á okkar slökkvilið og það sannað rækilega gildi sitt.

Þá kom teymi frá Rauða Krossinum og vann ásamt séra Gunnari Einari Steingrímssyni og Sesselju Bjarnadóttur hjúkrunarfræðingi að áfallahjálp og sálgæslu. Áfram verður hlúð að fólkinu okkar í dag og íbúum er velkomið að hafa samband ef þeir óska þjónustu á því sviði. Bent er á hjálparsíma Rauða Krossins 1717 og sími séra Gunnars er 835 1340.

Slökkviliði og viðbragðsaðilum öllum eru færðar alúðarþakkir fyrir góð og fumlaus viðbrögð í hvívetna. Einnig er þakkað fyrir kveðjur og hlýhug sem borist hafa frá nágrannasveitarfélögum og víða að.