Skóli hefst, breytingar á mötuneyti

Grenivíkurskóli verður settur á mánudag, 23. ágúst.  Vonast er til að skólahald geti gengið með sem eðlilegustu sniði, þó að sjálfsögðu verði farið eftir þeim sóttvarnarreglum sem eru í gildi.

Þorgeir Rúnar Finnsson hefur nú verið fastráðinn skólastjóri við Grenivíkurskóla, hann er boðinn hjartanlega velkominn til áframhaldandi starfa.

Breytingar verða á þjónustu mötuneytis skólans á haustönn, nú verður nemendum boðið upp á morgunmat í skólanum og þá verður matur á borðum í hádeginu alla daga skólavikunnar.  Nemendur þurfa því ekki lengur að koma með nesti að heiman á föstudögum.

Þessar breytingar voru ræddar á fundi fræðslu- og æskulýðsnefndar í vor og hafa síðan verið útfærðar nánar.  Sveitarstjórn staðfesti þær svo á fundi sínum í gær með eftirfarandi bókun:     

"Á haustönn verður boðið upp á mat á föstudögum, var áður nestisdagur. Einnig verður boðið upp á léttan morgunverð sem ekki hefur verið áður. Sveitarstjórn staðfestir breytinguna, gjald skv. gjaldskrá ársins hækkar til samræmis við aukinn fjölda máltíða og verður á haustönn kr. 7.860,- á mánuði."

Mötuneytisgjaldið hækkar því einungis sem nemur fjölgun máltíða úr 4 í 5 á viku, eða um 25%.  Ekki er gerð hækkun vegna morgunmatar.  Rétt er að geta þess að mötuneytisgjaldið hefur verið óbreytt síðan 1. janúar 2017.

Það er von skólastjórnenda og sveitarstjórnar að þessi breyting mælist vel fyrir.