Skólaslit og Sigga Sverris kvödd

Grenivíkurskóla var slitið með formlegum hætti mánudaginn 4.júní.  Þrír nemendur voru útskrifaðir úr 10.bekk, þau Auður, Jón Þorri og Rebekka Sól.  Ásta skólastjóri fór yfir skólastarfið í vetur og þakkaði starfsfólki, nemendum og foreldrum fyrir veturinn.  Þá minnti hún á mikilvægi lesturs og hvatti nemendur til að vera duglegir að lesa í sumar.  Sigga Sverris hættir störfum við skólann í vor, en nú eru 52 ár síðan hún hóf kennslu við Barnaskólann á Grenivík, þá aðeins 18 ára gömul.  Fyrstu nemendur Siggu voru 25 talsins.  Margir þeirra mættu á skólaslitin til að fagna þessum tímamótum með kennaranum sínum.  Sigga Sverris er búin að kenna þremur kynslóðum í sumum tilfellum.  Þannig er hún búin að kenna bæði börnum og barnabörnum Jennýjar, Bigga Pé, Hauks Vésteins og Nönnu Stínu.  Störf hennar í þágu íbúa sveitarfélagsins eru mikil og góð, hún hefur stutt bæði við nemendur og foreldra, sinnt íslenskukennslu fyrir útlendinga, verið frumkvöðull Grænfánaverkefnisins í sveitarfélaginu og hjálpað mörgum nýjum kennurum að fóta sig í starfi.  Siggu voru færðar bestu þakkir og Þröstur Friðfinnsson sveitarstjóri færði henni gjafabréf frá Grýtubakkahreppi í tilefni þessara miklu tímamóta.  Grenivíkurskóli verður ekki samur án hennar.