Sameiningar sveitarfélaga verði á forræði íbúa

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri
Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið á Akureyri dagana 26. til 28. september.  Þar var meðal annars kynnt skýrsla starfshóps um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga.  Skýrslan var áður kynnt fyrir ári síðan, m.a. á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.  Skýrsluna er að finna hér.

Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps bókaði á sínum tíma nokkuð ítarlega bókun um skýrsluna, bókunina er að finna hér.

Skýrslan var einnig kynnt á aðalfundi Eyþings um liðna helgi og nú á landsþingi sem fyrr segir.  Skýrslan leggur m.a. til að lögfest verði lágmarksstærð sveitarfélaga í áföngum sem endi í að verða 1000 íbúar.  Sveitarstjóri Grýtubakkahrepps taldi rétt að taka til varna fyrir litlu sveitarfélögin og flutti ræðu á landsþinginu að lokinni kynningu á skýrslunni.  Ræðuna má sjá og heyra hér, sem og aðra dagskrárliði landsþings. Málflutningur sveitarstjóra féll í góðan jarðveg einkanlega hjá fulltrúum minni sveitarfélaga og vegna áskorana er ræðan birt hér, hún var svohljóðandi:

Ég vil hvetja alla til að lesa skýrslu um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga, þar er mikið efni og margt gott.  En nauðsynlegt er að menn myndi sér skoðun sjálfir en taki ekki bara niðurstöðum og tillögum blint.

Það er nefnilega mikill galli að tillaga starfshópsins um lögfestingu lágmarksfjölda íbúa sveitarfélaga á sér ekki neina stoð í skýrslunni svo séð verði.  Þeim mun verra er, að þetta er sá þáttur sem hefur hæst farið um niðurstöður og helst er talinn sveitarfélagastiginu til framdráttar.

Það að sameina sveitarfélög með lagaboði er algerlega andstætt þeirri umræðu um íbúalýðræði og lýðræði almennt sem þó er nokkuð fyrirferðamikil í skýrslunni.  Það er líka í óþökk þorra þeirra sveitarfélaga sem málið snertir beint, sem er raunar meirihluti íslenskra sveitarfélaga að fjölda til, eða 39 af 72.

Miðað við umræðu um stór og sterk sveitarfélög sem hafi styrk og faglega burði til að veita lögbundna þjónustu og jafnvel taka við nýjum verkefnum frá ríkinu, er það líka þversögn að fjárhagslega standa lítil sveitarfélög almennt betur en stór.  Vandamál með lögbundna þjónustu hafa einnig verið mest áberandi hjá þeim stærstu, t.d. varðandi leikskólaþjónustu.  Sameining lítilla sveitarfélga leysir ekki þann vanda fyrir stóru sveitarfélögin.

Það er líka þversögn að lýðræðisleg þátttaka íbúa er mest í litlu sveitarfélögunum og samband þeirra við kjörna fulltrúa og starfsmenn sveitarfélaga einnig.  Því eru í skýrslunni tillögur um t.d. hverfisráð, íbúakosningar, þ.e. hærra flækjustig stjórnsýslu til að styrkja íbúalýðræði í stórum sveitarfélögum.

Í skýrslunni kemur einnig fram að í landmiklum sveitarfélögum sem hafa verið sameinuð, standa jaðarbyggðir verst.  Fjarlægðir breytast nefnilega ekki við sameiningu, og búsetuskilyrði almennt ekki mikið heldur.

Miðað við innihald skýrslunnar hefði mátt búast við þeirri niðurstöðu að æskilegur lágmarksfjöldi íbúa í sveitarfélagi væri t.d. 25 þúsund en ekki eitt þúsund.  Það er hins vegar augljóst flestum, að í okkar dreifbýla landi yrði slíkt líkara 3ja stjórnsýslustigi en heildstæðu sveitarfélagi og gengur alls ekki upp.  Það er nefnilega ekki til nein rétt lágmarkstala íbúa í sveitarfélagi á Íslandi.  Sameiningar og skipulag sveitarfélaga geta ekki og mega ekki byggjast eingöngu á íbúatölu.  Þar verður að horfa til fleiri þátta, landfræðilegra, lýðfræðilegra og fjárhagslegra svo einhverjir séu nefndir.

Það er mikil einföldun og raunar beinlínis rangt að sveitarfélagastigið styrkist svo nokkru nemi þó lítil sveitarfélög sameinist þannig að þau nái 1000 íbúum.  Það hefur nákvæmlega engin áhrif á stóru sveitarfélögin þar sem þorri landsmanna býr.  Eini fjárhagslegi ávinningurinn sem getur orðið af þeirri vegferð sem hér hefur verið boðuð bæði í gær og í morgun, er að þjónusta við íbúana skerðist eftir sameiningu, mest með fækkun skóla.  Það mun leiða til fólksflótta af jaðarsvæðum og veikingar byggða. Er það kannski markmiðið, þétting byggðar í landinu og stærri eyðibyggðir?  Þá ættu menn bara að þora að segja það, en ekki tala um að þessi vegferð sé til að efla þjónustu við íbúa.

Það er einnig mikil einföldun að Jöfnunarsjóður haldi almennt uppi minnstu sveitarfélögunum.  Sum fá ekkert frá jöfnunarsjóði og mörg fá minna pr. íbúa en mikið stærri sveitarfélög.  Þannig fær t.d. meira en helmingur sveitarfélga með undir 1000 íbúa, lægra framlag á íbúa frá Jöfnunarsjóði á síðasta ári en sveitarfélagið Skagafjörður sem er er nokkuð stórt og sameinað sveitarfélag.

Eins og fram kom í ræðu formanns í gær, er réttur íbúa til að ráða sínu nærsamfélagi með rekstri sveitarfélags varinn í stjórnarskrá.  Lögboðnar sameiningar yfir stærri landssvæði í óþökk íbúa, höggva í það minnsta nærri þessu ákvæði stjórnarskrár.

Sameining sveitarfélaga á að vera á forræði íbúanna sjálfra.  Það er algerlega ótækt að starfshópur sem lítil sveitarfélög eiga engan fulltrúa í, leyfi sér að koma fram með tillögu um að lög séu sett þeim til höfuðs.  Að kynna tillöguna síðan sem almennan vilja og jafnvel ákall frá sveitarfélögunum, er óforskammað svo ekki sé meira sagt.  Að þetta stef eigi síðan að vera leiðarstef fyrir styrkingu sveitarfélagastigsins í landinu er einkennilegur blekkingarleikur sem getur ekki leitt okkur til farsællar framtíðar.

Þröstur Friðfinnsson, ræða flutt á ársþingi Sambands ísl. sveitarfélaga á Akureyri 27. september 2018.