Munaðarlaus flugvöllur

Á Keflavíkurflugvelli.
Á Keflavíkurflugvelli.

Á fundi sveitarstjórnar í gær var lögð fram skýrsla Eflu verkfræðistofu um uppbyggingaráætlun fyrir Akureyrarflugvöll.  Af því tilefni ályktaði sveitarstjórn Grýtubakkahrepps eftirfarandi:

„Sveitarstjórn leggur áherslu á að Akureyrarflugvöllur fái strax sömu stöðu og Keflavíkurflugvöllur með nýrri eigendastefnu fyrir Isavia.“

Það hefur vakið mikla furðu margra um nokkurt árabil, að lítið hefur gengið að þoka uppbyggingu Akureyrarflugvallar áfram og hefur hann dregist aftur úr í mörgu tilliti.  Það sem er alvarlegast er að hvorki hann né Egilsstaðaflugvöllur hafa fylgt Keflavíkurflugvelli eftir sem varaflugvellir.  Gríðarleg fjölgun flugferða um Keflavík kallar á meira pláss fyrir vélar á varaflugvöllunum og jaðrar við öryggisbrest það kæruleysi stjórnvalda að hugsa ekki fyrir því.

En af hverju hefur gengið svona illa að þoka áfram málum Akureyrarflugvallar og raunar Egilsstaðaflugvallar líka?  Ástæðan er ekki flókin, enginn aðili hefur stjórnskipulega það hlutverk að setja þessum völlum stefnu um uppbyggingu.  Isavia rekur vellina undir þjónustusamningi og telur sér hvorki skylt né heimilt að fara út fyrir það sem þeir samingar við ríkið segja, en það er nánast bara að halda völlunum starfhæfum frá degi til dags.

Það hefur verið ankannalegt að heyra reglulega af tugmilljarða uppbyggingaráætlunum Isavia fyrir Keflavíkurflugvöll og miklum tekjuafgangi Isavia af rekstri vallarins, á sama tíma og ekki tekst einu sinni að fjármagna flughlöð á Akureyri til að tryggja lágmarksöryggi flugs til Íslands.  Því er skýrsla Eflu gott innlegg, en það er í mínum huga alveg ljóst að ekkert mun breytast á Akureyrarflugvelli nema munaðarleysi hans verði aflétt.  Það er best gert með því að setja hann undir Isavia undir sömu formerkjum og Keflavíkurflugvöll.  Það gerist með nýrri eigendastefnu fyrir Isavia og skýrum fyrirmælum stjórnvalda þar um.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri