Minjasafnið tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna

Laufás, gamli bærinn er í umsjá Minjasafnsins
Laufás, gamli bærinn er í umsjá Minjasafnsins

Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa að Íslensku safnaverðlaununum, sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Þetta er í tuttugasta og fyrsta sinn sem verðlaunin verða afhent.

Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Alþjóðlega safnadaginn þann 18. maí, í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Viðburðurinn er opinn öllum og verður auglýstur nánar síðar.

Minjasafnið á Akureyri hefur verið tilnefnt til verðlaunanna og er eftirfarandi um safnið og umsögn valnefndar:

Minjasafnið á Akureyri – safn í tengslum við samfélagið

Minjasafnið á Akureyri er rótfast í eyfirsku samfélagi og hefur verið það frá stofnun árið 1962. Starfsemi þess er fagleg og fjölþætt. Það hefur sinnt söfnun og varðveislu menningarminja af mikilli alúð, með áherslu á söfnun ljósmynda sem er öflug samfélagslegstenging og samofin öllu starfi safnsins, einkum á síðustu áratugum.

Minjasafnið á Akureyri hefur á að skipa mjög hæfu starfsfólki sem af áhuga og metnaði hefur skipað því í fremstu röð minjasafna. Safnið hefur um árabil staðið mjög vel að fræðslu fyrir öll skólastig og skapað gott samstarf við skóla, uppeldisstofnanir og fleiri stofnanir og haldið fjölda fagnámskeiða fyrir nágrannasöfnin. Safnið hefur tekið virkan þátt í Eyfirska safnaklasanum frá stofnun hans árið 2005 og lagt mikla rækt við samstarf, með áherslu á alla aldurshópa. Minjasafnið á Akureyri er m.a. í samstarfi við Virk, Vinnumálastofnun, Fangelsismálastofnun og Akureyrarbæ. Í því samstarfi sinnir safnið vel samfélagslegu hlutverki sínu og aðstoðar einstaklinga við að koma jafnvægi á líf sitt um leið og það styrkir eigin starfsemi. Safnið miðlar eyfirskum menningararfi með ýmsum hætti, bæði í útgáfu og sýningum á Akureyri: í Kirkjuhvoli, í Nonnahúsi, Davíðshúsi og Friðbjarnarhúsi. Þá hefur Minjasafnið á Akureyri, samkvæmt samningi við Þjóðminjasafn Íslands, umsjón með gamla torfbænum í Laufási og sýningahaldi þar. Ein viðamesta sýning safnsins nú er sýningin Tónlistarbærinn Akureyri sem opnaði 2020 en hún er afrakstur fjögurra ára frumrannsóknar á tónlistarmenningu bæjarins. Safnið notar ýmsar leiðir til að virkja íbúa starfssvæðisins, eins og að bjóða ungskáldum að taka þátt í viðburðaröðinni Allar gáttir opnar og Skáldastund í Davíðshúsi og leita eftir beinni þátttöku íbúa í ljósmyndasýningaröðinni Þekkir þú… og ljósmyndasýningunni Hér stóð búð. Þá voru íbúar beðnir um aðstoð við að greina myndefnið, með mjög góðum árangri.

Það er mat valnefndar að Minjasafnið á Akureyri haldi vel „lifandi“ tengslum milli svæðisbundins menningararfs og samtímans með vel skipulagðri starfsemi og hafi margsýnt hvers samfélagslega rekin minjasöfn eru megnug og mikilvæg þegar þau eru vel mönnuð og vel er haldið utan um þau. Áhersla á samfélagsleg gildi og samstarf við hina ýmsu ólíku hópa og aðila skipar Minjasafninu á Akureyri í hóp fremstu safna á Íslandi í dag.