Magni og Ægir undir eitt þak

Vaskir Ægismenn eru ávalt viðbúnir á sjó sem á landi
Vaskir Ægismenn eru ávalt viðbúnir á sjó sem á landi
Magni mun ganga til leiks í Inkassodeildinni í vor

Sveitarstjórn og stjórn Sæness hafa ákveðið að koma mjög myndarlega að byggingu nýs húss á íþróttasvæði Grenivíkur.  Áformað er að byggja nýtt stálgrindahús eða límtréshús á gamla malarvellinum, undir starfsemi Björgunarsveitarinnar Ægis og Íþróttafélagsins Magna.  Sænes mun leggja fram andvirði innkaupsverðs hússins sem áætlað er að verði tæpir tveir tugir milljóna.  Félögin munu sjálf koma upp grunni og sjá um uppsetningu og frágang hússins.

Í hluta Magna verður búningsaðstaða fyrir knattspyrnuvöllinn, bæði lið og dómara, snyrtingar fyrir áhorfendur og félagsaðstaða.  Í hluta Ægis verður rými fyrir allan búnað sveitarinnar og væntalega þjálfunar- og æfingaaðstaða.  Mögulega verður einnig samnýtanleg aðstaða fyrir félögin að hluta, t.d. fundarsalur.

Ávinningur er margvíslegur af þessari byggingu.  Núverandi húsnæði Björgunarsveitarinnar er óhentugt, mjög lélegt og dýrt í rekstri.  Magni fær nýja og góða aðstöðu fyrir völlinn og félagið á einum stað.  Ekki mun lengur þurfa að trufla vaxandi straum sundlaugargesta, en til þessa hefur þurft að loka sundlauginni þegar leikir eru á vellinum.  Þá hefur búningsaðstaðan þar verið nýtt á æfingum Magna og rýmkast mjög um í klefunum þegar sú umferð færist í nýtt hús.   Malarvöllurinn mun einnig nýtast vel sem bílastæði fyrir íþróttasvæðið.

Framkvæmdir ættu að geta hafist í vor, en framgangur veltur síðan einnig á annarri fjáröflun félaganna.  Vonandi munu aðrir velunnarar Magna og Ægis taka hraustlega á þessu verkefni með okkur.