Magni í Inkassodeildina!

Magnamenn fá silfurverðlaunin afhent eftir leikinn við Vestra
Magnamenn fá silfurverðlaunin afhent eftir leikinn við Vestra

Magni tryggði sér um helgina sæti í næstefstu deild í knattspyrnu að ári, sem nú heitir Inkasso-deildin.  Þrátt fyrir 1 - 3 tap fyrir Vestra, þá dugði sterk staða Magna í annarri deild til, þar sem Víðir í Garði tapaði fyrir Aftureldingu á sama tíma.  Var annað sætið á eftir Njarðvík þar með í höfn.

Þessi árangur Magna í sumar er stórglæsilegur og er Magnapiltum óskað innilega til hamingju.  Þess má geta að á leikinn á laugardag komu töluvert fleiri áhorfendur en íbúatala Grýtubakkahrepps og fleiri en á suma leiki í efstu deild á sama tíma!

Formaður og forsvarsmenn KSÍ eru væntanlegir til Grenivíkur til að taka út aðstöðu og funda með forsvarsmönnum Magna og sveitarfélagsins. Meiri kröfur eru gerðar til ýmissar aðstöðu en í neðri deildum, og verður farið yfir hvað þarf að endurbæta fyrir næsta sumar.