Löng saga og stutt

Frá vinstri;  Þröstur, Guðný, Stefán og Jakob.
Frá vinstri; Þröstur, Guðný, Stefán og Jakob.

Einörð afstaða sveitarstjórnar og íbúa Grýtubakkahrepps þegar kemur að sameiningarmálum sveitarfélaga, hefur í gegnum tíðina vakið athygli. Kannski er það ekki að undra, þar sem telja má ansi líklegt að Grýtubakkahreppur eigi sér lengsta sögu núverandi sveitarfélaga á Íslandi í óbreyttri mynd. Hann rekur sögu sína meira en eitt þúsund ár til þess tíma er hreppar tóku að myndast á þjóðveldisöld.

Grýtubakkahreppur hefur staðið af sér allar tilraunir til breytinga á hreppamörkum. Þannig stóð til fyrir rúmum 200 árum að færa hreppamörk út fyrir Laufás og nefna ströndina inn úr Laufáshrepp en því var hrundið. Einnig hafa allar sameiningartilraunir seint á síðustu öld og í byrjun þessarar aldar runnið út í sandinn.

Loks náðu ekki fram að ganga áform um lögfestingu íbúalágmarks vorið 2021, en þau hefðu þvingað Grýtubakkahrepp til sameiningar við annað eða önnur sveitarfélög. Í ljósi þessarar löngu sögu væri kannski ekki óeðlilegt að Grýtubakkahreppur sem sveitarfélag yrði friðlýstur!

Í gær var haldið hátíðlegt 25 ára afmæli Grenilundar hjúkrunarheimils á Grenivík. Það er styttri saga en afar ánægjuleg og hefur aukið við lífsgæði íbúa hér og raunar á stærra svæði.

Í afmælishófi sem haldið var á Grenilundi vildi svo skemmtilega til, að þar voru mættir allir sveitarstjórar Grýtubakkahrepps frá því að sveitarstjóri var fyrst ráðinn í fullt starf árið 1976. Áður höfðu oddvitar séð um reksturinn og 1974 til 1976 sá Sverrir á Lómatjörn um rekstur og fjármál hreppsins í hlutastarfi.

Allir sveitarstjórarnir eru nú búsettir á Grenivík eftir að Stefán Þórðarson flutti heim á Grenilund. Það segir ýmislegt um staðinn og viðhorf til hans. Það má líka kalla enn eitt merkið um íhaldssemi hreppsbúa að þessa tæplega hálfu öld hafa einungis fjórir gengt starfi sveitarstjóra Grýtubakkahrepps:

Jakob Helgi Þórðarson 1976 – 1979

Stefán Þórðarson 1979 – 1987

Guðný Sverrisdóttir 1987 – 2014

Þröstur Friðfinnsson frá 2014.

Myndin var tekin við þetta tækifæri og má að líkindum telja hana nokkuð sögulega.