Íbúar Grenilundar hjóla af krafti í alþjóðlegri keppni! 🚴‍♀️🌍

Harðsnúinn hjólahópur
Harðsnúinn hjólahópur

Íbúar Grenilundar tóku þátt í alþjóðlegu hjólakeppninni Road Worlds for Seniors sem fram fór í október. Keppnin er árleg og tengir saman hjúkrunarheimili og þjónustumiðstöðvar víðs vegar um heiminn með því markmiði að hvetja eldri borgara til hreyfingar, samkeppni og samveru.

Árangurinn í ár var frábær íbúar Grenilundar hjóluðu samanlagt 1.993 kílómetra á keppnistímabilinu! Þetta er stórglæsilegt afrek og endurspeglar mikinn áhuga, dugnað og samheldni okkar fólks hér á heimilinu.

Grenilundur var meðal 268 liða frá 13 löndum og endaði í 34. Sæti í liðakeppninni sem er frábær árangur sérstaklega miðað við stærð heimilisins. Heildarfjöldi þátttakenda var 7.802.

Við viljum einnig nefna að einn af okkar öflugustu keppendum hjólaði heila 1.177 kílómetra og hafnaði í 15. sæti í karlaflokki á heimsvísu! Slíkt afrek er sannarlega til eftirbreytni og hvatning fyrir alla. Að keppninni lokinni voru afhentar viðurkenningar og rjómaterta með kaffinu.

Við erum afar stolt af öllum íbúum sem tóku þátt hvort sem það var með því að hjóla daglega, hvetja aðra eða skapa góða stemningu í kringum keppnina. Keppnin hefur sýnt hversu mikill kraftur, lífsgleði og keppnisskap býr á Grenilundi.

Við hlökkum til að taka þátt aftur á næsta ári 🚴‍♂️💪

Frétt og myndir frá Grenilundi.