Hitaveitan tæp í vetur

Mikil lífsgæði, við sættum okkur illa við minna.
Mikil lífsgæði, við sættum okkur illa við minna.

Það var mikið framfaraskref þegar hitaveita var lögð til Grenivíkur, alla leið ofan frá Reykjum í Fnjóskadal.  Raunar svo mikið að ekki sáu menn fyrir alla þá möguleika sem heita vatnið skapaði, því eftir aðeins áratug í rekstri var veitan komin að þolmörkum.

Nú er staðan þannig að lögnin hefur ekki undan á köldustu dögum og þrýstingur fellur hjá þeim notendum sem verst eru staðsettir.

Sveitarstjórn hefur ítrekað bókað áhyggjur sínar og sent áskoranir um úrbætur til Norðurorku á undanförnum árum.  Einnig hafa sveitarstjóri og fulltrúar úr sveitarstjórn átt þó nokkra fundi með starfsmönnum Norðurorku.  Nú síðast var fundað með starfsmönnum og stjórnarformanni Norðurorku í janúar.

Sveitarstjórn hefur enn á ný sent formlegt erindi þar sem farið er fram á að Norðurorka geri nú þegar áætlun um uppbyggingu veitunnar þannig að hún geti þjónað samfélaginu hér til framtíðar. 

Einnig að farið verði í frekari rannsóknir með borunum í hreppnum þar sem enn eru órannsökuð svæði sem þykja nokkuð vænleg.

Þá hefur verið farið fram á að afköst veitunnar verði hámörkuð svo fljótt sem mögulegt er með þeim aðgerðum sem tiltækar eru, t.d. með aukinni dælingu.

Norðurorka hefur þegar lagt í verulegar framkvæmdir á Reykjum til að auka skilvirkni og afkastagetu veitunnar.  Í sumar verður síðan byggð dælustöð sem mun auka afköst og standa vonir til að næsta vetur verði staðan því mun betri en í vetur.  Áformað er að setja upp fleiri dælustöðvar á leiðinni frá Reykjum til Grenivíkur á næstu árum og hámarka þannig það vatn sem við getum fengið með núverandi lögn.

Þeir íbúar sem finna stundum fyrir þrýstingsfalli eru beðnir að sýna þolinmæði, við treystum á að Norðurorka leysi þessi mál og staðan verði betri næstu vetur.

Við verðum því miður að grípa til þess bragðs að loka sundlauginni á köldustu dögum núna í vetur.  Það er gert til að tryggja að fyrirtækin okkar fái það vatn sem þau þurfa til sinnar starfsemi.  Íbúar hafa þegar orðið varir við þessar aðgerðir en tíðarfar mun ráða hve mikið þarf að grípa inn í opnun sundlaugarinnar.  Vonandi verður það sem allra minnst.

Íbúar eru beðnir að sýna skilning við þessar aðstæður.  Einnig að leggja sitt af mörkum til að sóa ekki heitu vatni, t.d. með því að ofnar séu rétt stilltir þannig að ekki renni út af þeim of heitt vatn.  Við treystum á úrbætur og sveitarstjórn mun áfram þrýsta á um að Norðurorka finni varanlegar lausnir þannig að veitan geti þjónað vaxandi byggð og auknum umsvifum í atvinnulífi til framtíðar.