Guðni lætur af störfum

Guðni Sigþórsson forstöðumaður þjónustumiðstöðvar Grýtubakkahrepps hefur ákveðið að láta af störfum í sumar, en hann verður 68 ára í júlí.  Guðni mun vinna til 4 júlí í sumar og hefur hann þá starfað í nákvæmlega 20 ár hjá Grýtubakkahreppi.

Þetta hefur verið skemmtilegur tími að sögn Guðna og í dag er margt ólíkt því sem var er hann kom til starfa.  Mikið hefur verið unnið í fegrun umhverfis, frágangi gatna og slíku og er ásýnd Grenivíkur allt önnur og betri í dag en fyrir 20 árum.  Af verklegum framkvæmdum á þessum tíma má nefna lagningu nýrra gatna, uppbyggingu frístundabyggðarinnar í Sunnuhlíð, lagningur hitaveitu og ljósleiðara og gerð smábátahafnar.   Einnig byggingu gámasvæðis, endurnýjun vatnsbóla fyrir neysluvatn, byggingu leikskóla, íþróttamiðstöðvar, tjaldsvæðis með aðstöðuhúsi, leiguíbúða og dvalarheimilisins Grenilundar.  Umfang þjónustumiðstöðvar og verkefni hafa vaxið töluvert með þessum framkvæmdum þó mannahaldi hafi verið haldið í lágmarki.

Þjónustustig er einnig mikið hærra nú en áður, kröfur íbúa sífellt meiri og geta sveitarfélagsins til að mæta þeim gjörbreytt með meiri og betri tækjabúnaði.  Sama hvort litið er til snjómoksturs og hálkuvarna að vetri eða hirðingar og fegrunar umhverfis að sumri, þá er breytingin mikil.

Grýtubakkahreppur færir Guðna bestu þakkir fyrir þessi 20 ár en Guðni mun áfram gegna starfi slökkviliðsstjóra í hlutastarfi tvö ár til viðbótar, eða þar til hann verður sjötugur.

Rekstur og form þjónustumiðstöðvarinnar verður nú tekið til skoðunar hjá sveitarfélaginu, einnig umsjón fasteigna og skýrist væntanlega með vorinu hvernig störfum verður háttað áfram.  Markmiðið er að veita íbúum áfram sem besta þjónustu með eins hagkvæmum hætti og kostur er.