Grenilundur, tilslakanir á næstunni

Það er að vora
Það er að vora

Hvergi hefur covid-19 haft meiri áhrif á daglegt líf og lengur, en á hjúkrunarheimilum.  Að þeim frátöldum sem veikst hafa að sjálfsögðu.  Nú erum við vonandi að sjá til lands í þessum faraldri.

Við erum þó ekki alveg komin alla leið og kannski munu þessir tímar breyta okkar hegðun að einhverju leyti til frambúðar.  Við erum að fara að byrja með tilslakanir á heimsóknarbanni á Grenilundi fyrir aðstandendur í samráði við önnur hjúkrunarheimili landsins en við fundum reglulega og samræmum okkar aðgerðir eins og hægt er.

Bréf til aðstandenda með kynningu á nýjum heimsóknarreglum er að finna hér.

Ég vil þakka ættingjum og vinum fyrir að taka þessu ástandi svona vel. Ég vil líka þakka starfsfólki Grenilundar fyrir útsjónarsemi og gott samstarf.  Það er alveg ljóst að þessi vá og sú áhætta að geta smitað íbúa Grenilundar hefur mikil áhrif á alla starfsmenn Grenilundar. Að mínu mati eiga þeir miklar þakkir og bros skilið (því ekki má knúsa) frá öllum.

Ég vil líka minna á að þetta ástand er ekki búið og við verðum að halda þetta út, fara varlega og hlýða Víði. Við verðum sérstaklega að verja okkar viðkvæma hóp. Við byrjuðum fyrst með takmarkanir á hjúkrunarheimilum og munum vera síðust með tilslakanir.

Nú er vorið komið og eru íbúar Grenilundar alsælir með það að komast út í góða veðrið. Ég bið íbúa Grýtubakkahrepps og ættingja að huga vel að þvi að þrátt fyrir að íbúar sitji úti eða séu á göngu með starfsfólki, þá er heimsóknarbannið enn í gildi um sinn. Passa þarf fjarlægðina, því miður er ekki óhætt að setjast niður með heimilisfólkinu úti og fjarlægðin er rúmlega 2 metrar sem við miðum við.  Góður mælikvarði er breiddin á stéttinni.

Ég vona að vorið og sumarið verði gott. Verum bjartsýn en á sama tíma höldum þetta út og vöndum okkur.

Bestu kveðjur,

Fjóla, forstöðumaður Grenilundar