Grenilundur fær rausnarlegar gjafir

Í október fögnuðum við 20 ára afmæli Grenilundar.  Var þar tilkynnt um veglegar gjafir í tilefni þeirra tímamóta. 

Gjögur hf. gaf nýtt og fullkomið æfingahjól og Grýtubakkahreppur sjónvarp, tölvu og Motiview myndbandskerfi.  Nú hefur þetta allt verið tekið í gagnið, og geta íbúar Grenilundar nú setið við skjáinn og hjólað nánast hvert í heim sem er, bæði innan lands og utan.  Á skjánum líður fram myndband um hjólaleiðir, rétt eins og farið sé um á reiðhjóli.  Undir hljómar tónlist að vali hvers og eins.  Á meðf. myndum má sjá Stefán Árnason og Unni Karlsdóttur hjóla um Höfðahverfi og stræti Vínarborgar.

Ættingjar Steinunnar Guðjónsdóttur og ættingjar Ásmundar Kristinssonar heitins í Höfða, færðu Grenilundi einnig peningagjafir.  Voru þær notaðar til að endurnýja stóla í borðstofu.

Gefendum eru færðar alúðarþakkir fyrir þá miklu velvild sem Grenilundur nýtur.