Fyrsta skóflustunga að nýju raðhúsi,- fréttir af byggingum

Vinnuuppdrættir að raðhúsinu.
Vinnuuppdrættir að raðhúsinu.

Á morgun, þriðjudaginn 27. september kl. 15:00, verður tekin fyrsta skóflustungan að nýju 5 íbúða raðhúsi við Höfðagötu nr. 3 - 5.

Það er nýstofnað félag, Landsbyggðarhús ehf., sem byggir raðhúsið.  Eigendur fyrirtækisins eru þau Indriði Þröstur Gunnlaugsson og Birgitta Anna Sigursteinsdóttir.

Gjögur hf. hefur fest sér eina íbúð og húsnæðisfélagið Bríet hefur fest sér 2 íbúðir í raðhúsinu.  Bríet er óhagnaðardrifið leigufélag í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og er afar ánægjulegt að það komi nú að lausn húsnæðisvanda sem hefur verið viðvarandi á Grenivík.

2 íbúðir í raðhúsinu verða síðan til sölu á frjálsum markaði, en íbúðirnar eru allar 4ra herbergja og með góðum geymsluskúr til viðbótar.  Þær eru hannaðar með góða nýtingu á plássi í huga, vandaðar en þó hagkvæmar í byggingu.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir lóðum á þessu ári og hefur sveitarstjórn úthlutað stærstum hluta lausra lóða við tilbúnar götur á Grenivík.  Auk raðhússins við Höfðagötu hefur verið úthlutað lóð undir parhús við Lækjarvelli 3 og lóðum undir einbýlishús við Höfðagötu nr. 4, 6, 7, 10 og 11.  Þá hefur hefur verið úthlutað lóðum undir einbýlishús við Ægissíðu nr. 6 og 37.  Loks má geta um að húsið Laugaland að Ægissíðu 14 hefur verið rifið og hafin er bygging á tveim íbúðarhúsum á lóðinni.

Alls er því um að ræða áform um byggingu 16 íbúða sem munu bæta verulega úr brýnni þörf.  Verður spennandi að sjá þessi áform verða að veruleika á næstu tveim til þrem árum.  Þessi uppbygging kemur í kjölfar nýbygginganna við Sæland og parhússins að Ægissíðu 9.

Þá er í vinnslu deiliskipulag fyrir einbýlishúsahverfi í brekkunni gengt Gamla Skóla sem ætti að klárast á þessu ári.  Svigrúm verður því fyrir umtalsverða uppbyggingu áfram á íbúðarhúsnæði sem leggur grunn að íbúafjölgun og styrkingu samfélagsins til framtíðar.

Forsenda fyrir uppbyggingu og íbúafjölgun er sterkt atvinnulíf, þar er ekki síður mikil uppbygging í gangi.  Hafin er bygging nýs verksmiðjuhúss Pharmarctica, um 1500 fermetra hús, og góður skriður er nú á framkvæmdum við hótelbygginguna upp á Skælu, Höfði Lodge.