Friðfinnur sigrar kóðunarkeppni grunnskólanna.

Um mánaðarmótin janúar/febrúar fengu nemendur Grenivíkurskóla boð um að taka þátt í kóðunarkeppni grunnskólanna í Reykjavík. Einn mjög áhugasamur nemandi, Friðfinnur Már Þrastarson, skráði sig til leiks, sleppti æfingabúðum sem í boði voru og fór beint í forkeppnina 22.-28. febrúar. Þar náði hann í fullt hús stiga og þurfti ekki meira en 6 klst til þess en í boði voru 6 dagar til að leysa verkefnið. Honum var skipað í efri deild og í aðalkeppninni sem haldin var í Tækniskólanum í Reykjavík 1.-2. apríl, brilleraði hann og kláraði fyrstu 12 verkefnin með 100% árangri og 13. verkefnið með 72% árangri sem var besti árangur af þátttakendum. Verðlaunin voru frí fyrsta önn í Tækniskólanum en headphone fyrir annað sætið voru þó meira spennandi að hans mati. Friðfinnur var yngstur keppenda en hinir voru 2 árum eldri. Það er greinilegt að drengurinn á framtíðina fyrir sér í þessu og er honum óskað innilega til hamingju með glæsilegan árangur. Frétt tekin af vef grenivikurskola.is