Framkvæmdir við vatnsveitu

Ekki kafbátabyrgi en veglegir vatnstankar!
Ekki kafbátabyrgi en veglegir vatnstankar!

Þessa dagana er vinna við niðursetningu og tengingu þriggja miðlunartanka fyrir vatnsveituna í fullum gangi.  Þeir eru settir niður við eldri miðlunartank og tengjast honum í sömu hæð.  Munu tankarnir þannig allir virka sem einn væri. 

Nýju tankarnir taka 25 rúmmetra hver og mun miðlunargeta veitunnar nálega tvöfaldast við þessa aðgerð.  Verður veitan því mikið betur sett í verstu vatnsárum.  Þó nægt vatn hafi verið nú síðustu misserin, kom fyrir að vatn væri tæpt fyrir nokkrum árum eftir mjög snjóléttan vetur.

Veitan verður því mun betur í stakk búin til að þjóna þeim vexti sem nú er framundan á Grenivík.  Þá mun þessi áfangi bæta aðgang slökkviliðs að slökkvivatni til muna.

Birnir verktakar í Réttarholti vinna að verkinu ásamt starfsmönnum áhaldahúss.  Reiknað er með að vatn verði komið í tankana fyrir veturinn.

Tankarnir voru keyptir í fyrra ásamt ölllum tengibúnaði, en ekki tókst að koma þeim fyrir þá vegna stöðugrar vætutíðar fram eftir hausti.  Heildarkostnaður við þessa framkvæmd bæði árin er áætlaður um 18 milljónir króna.