Fjárhagsáætlun samþykkt

Svæðið tekur stakkaskiptum.  Endurgerður gamli skúrinn verður með snyrtingum fyrir gesti og gangandi…
Svæðið tekur stakkaskiptum. Endurgerður gamli skúrinn verður með snyrtingum fyrir gesti og gangandi.

Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 10. desember, fjárhagsáætlun fyrir árin 2019 – 2022.  Reiknað er með jákvæðum rekstri öll árin og þó nokkrum framkvæmdum.

Áætlun næsta árs gerir ráð fyirr 4,4 mkr. afgangi af rekstri sveitarfélagsins sem fari nokkuð vaxandi árin á eftir.  Síðustu misseri hafa skatttekjur Grýtubakkahrepps ekki fylgt þróun landsmeðaltals, líklega má kenna styrkingu krónunnar um sem hefur slæm áhrif á laun sjómanna.  Nú þegar krónan hefur tekið að veikjast vakna vonir um að þessi þróun muni geta snúið við á næstu árum.

Aðhalds þarf því að gæta í rekstri, en fjárfestingageta sveitarfélagsins er þó vel viðunandi og efnahagsstaðan afar traust sem fyrr.  Á þessu ári var lokið við 4 íbúðir við Kirkjuveg, og þá var ráðist í miklar framkvæmdir við gerð áningarstaðar við gömlu bryggjuna og fékkst til þess myndarlegur styrkur frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.  Verkinu var ekki alveg fulllokið fyrir veturinn, og verður lokafrágangur unninn með vorinu.

Á næsta ári er áformað að eignfærð fjárfesting nemi 44 mkr., og ber hæst framkvæmdir við sundlaugina.  Þar er áformað að gera nýja og stærri setlaug ásamt buslulaug.

Sveitarstjórn hefur markvisst stefnt að fölskylduvænna samfélagi og miða gjaldskrárbreytingar við þá stefnu.  Gjaldskrár leikskóla, skólavistunar sem og fæðisgjöld, verða óbreytt.  Vistunargjöld hafa þá verið óbreytt frá 1. janúar 2016.  Gjald fyrir börn í sund verður einnig óbreytt.  Miðað er við að hækka aðra liði um 3% í grunninn, en þó er einhver breytileiki og hækka einstakir liðir allt frá 0 og upp í 7%.

Gjaldskrár og fjárhagsáætlunin verða birtar á heimasíðu sveitarfélagsins fljótlega.