Erfið staða í landbúnaði - bókun sveitarstjórnar

Grýtubakkahreppur
Grýtubakkahreppur

Sveitarstjórn fjallaði um stöðu landbúnaðar á fundi sínum í gær og samþykkti eftirfarandi bókun:

Sveitarstjórn Grýtubakkahepps lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin í landbúnaði. Miklar kostnaðarhækkanir og hækkun vaxta á liðnum misserum hafa verið atvinnugreininni mjög erfiðar og er rekstrargrundvöllur margra búa að bresta.

Landbúnaður er ein af undirstöðuatvinnugreinum hvers ríkis og ber stjórnvöldum að tryggja að greinin hafi eðlilegt rekstarumhverfi á hverjum tíma. Þar með talið þarf að horfa til samkeppnisstöðu, gæðaeftirlits með innflutningi, tollasamninga og tryggja að eftir reglum og samningum sé farið.

Sveitarstjórn skorar á stjórnvöld að grípa nú þegar til aðgerða til að fyrirbyggja að hrun verði í matvælaframleiðslu á Íslandi. Fæðuöryggi þjóðarinnar til lengri og skemmri tíma má ekki stefna í hættu og allra síst af völdum efnahagsstefnu stjórnvalda sjálfra.