Covid - staða og horfur

Eins og flestir hafa líklega orðið varir við í fréttum verður öllum takmörkunum v. covid aflétt á miðnætti.  Við höfum almennt sloppið vel hér í hreppnum til þessa, en nú eru blikur á lofti og virðist sem veikindi séu að stigmagnast mjög hratt í gær og dag.  Þó nokkur börn hér eru nú að veikjast og því er rétt að allir séu vakandi og við höfum áfram varann á varðandi smitvarnir.  Þeir sem eru veikir eða með skýr einkenni ættu að vera heima meðan gengur yfir.  Rétt að kynna sér einnig smitgátina, hlekkur á leiðbeiningar í textanum hér neðan við.

Eftirfarandi eru viðmiðanir frá sóttvarnarlækni um sýnatökur;

Breytingar á rannsóknum til greiningar á COVID-19

Eins og áður hefur komið fram í fréttum, þá var hámarks PCR-greiningargetu vegna COVID-19 náð fyrir nokkru síðan. Þetta hefur leitt til þess að bið eftir niðurstöðu úr PCR-greiningum er orðin allt að 2-3 sólarhringar sem er óásættanlegt.

Til að bregðast við þessu þá hefur verið ákveðið að nú verður ekki lengur í boði fyrir almenning með einkenni sem benda til smits af völdum COVID-19 að panta í PCR sýnatöku heldur verða hraðgreiningapróf einungis í boði.

Fólk getur pantað tíma í hraðgreiningapróf hjá heilsugæslunni í Heilsuveru. Einnig verður hægt að panta próf hjá einkafyrirtækjum sem bjóða upp á hraðgreiningapróf. Prófið er einstaklingum að kostnaðarlausu.

Jákvætt hraðgreiningapróf mun því nægja til greiningar á COVID-19 og ekki verður þörf á staðfestingu á greiningunni með PCR-prófi.

Þeir sem greinast jákvæðir á sjálfprófum/heimaprófum geta fengið greininguna staðfesta með hraðgreiningaprófi hjá heilsugæslunni eða einkafyrirtækjum en greining hjá þessum aðilum er forsenda fyrir því að hún verði skráð í sjúkraskrá viðkomandi og forsenda fyrir opinberum vottorðum um smit af völdum COVID-19.

Þeim sem nú greinast með COVID-19 á hraðgreiningaprófi er ekki skylt að dvelja í einangrun en engu að síður eru tilmæli sóttvarnayfirvalda þau, að fólk dvelji í einangrun í 5 daga. Ef fólk er einkennalítið eða einkennalaust þá getur það mætt til vinnu en fari þá eftir leiðbeiningum um smitgát í 5 daga. Samkvæmt núgildandi reglugerð um einangrun þá er þeim sem greinast með PCR-prófi hins vegar skylt að dvelja í einangrun í a.m.k. 5 daga.

Notkun á PCR-prófum verður framvegis bundin við ábendingar lækna og þá sem eru með alvarleg einkenni eða alvarlega undirliggjandi sjúkdóma skv. mati læknis. Einnig verður PCR-próf áfram í boði fyrir þá sem þurfa á neikvæðum niðurstöðum slíkra prófa að halda vegna ferðalaga erlendis en þá gegn gjaldi.

Sóttvarnalæknir