Breyttar reglur um sóttkví

Sett hefur verið ný reglugerð um sóttkví og hefur hún þegar tekið gildi.  Hér að neðan er farið yfir helstu breytingar og neðst eru hlekkir á reglugerðina og leiðbeiningar sóttvarnarlæknis.  Mikilvægt að kynna sér þessar breytingar vel, enda reynir nú meira og meira á okkur öll.  Allt miðar að tveim markmiðum sem kannski er ekki einfallt að ná samhliða, að vinna gegn útbreiðslu veirunnar en á sama tíma halda þjóðfélaginu gangandi eftir því sem mögulegt er.  Þar er t.d. skólastarf í forgangi.

Breyttar reglur um sóttkví gilda um:

a) einstaklinga sem eru þríbólusettir og fengu síðustu sprautuna meira en 14 dögum áður en viðkomandi er útsettur fyrir smiti

b) einstaklinga sem hafa jafnað sig af staðfestu Covid-smiti og eru jafnframt tvíbólusettir, að því gefnu að þeir hafi fengið síðari sprautuna meira en 14 dögum áður en þeir voru útsettir.

Breyttar reglur fela í sér að hlutaðeigandi er:

  • heimilt að sækja vinnu eða skóla og sækja sér nauðsynlega þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu, fara í matvöruverslanir og lyfjabúðir og nota almenningssamgöngur,
  • óheimilt að fara á mannamót eða staði þar sem fleiri en 20 koma saman, nema í því samhengi sem nefnt er hér að ofan,
  • skylt að nota grímu í umgengni við alla nema þá sem teljast í nánum tengslum og gildir grímuskyldan einnig þótt hægt sé að halda tveggja metra fjarlægð,
  • óheimilt að heimsækja heilbrigðisstofnanir, þar með talin hjúkrunarheimili, nema með sérstöku leyfi viðkomandi stofnunar,
  • skylt að forðast umgengni við einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af Covid-19.

Takmörkunum samkvæmt ofangreindum reglum lýkur ekki fyrr en með niðurstöðu PCR-prófs sem tekið er á fimmta degi sóttkvíar. Ef einstaklingur finnur fyrir einkennum smits einhvern tíma á þessu fimm daga tímabili á hann að undirgangast PCR-próf án tafar. Tími í sóttkví er aldrei skemmri en fimm dagar.

Reglugerðin var birt í Stjórnartíðindum síðdegis í dag ( 7. janúar 2022) og hefur þegar öðlast gildi og gildir um alla einstaklinga sem sæta sóttkví við gildistöku hennar.