Bókanir sveitarstjórnar

Sveitarstjórn Grýtubakkarhepps hefur á fundum sínum samþykkt samhljóða þær bókanir sem hér koma á eftir.  Þeim hefur verið komið á framfæri við viðeigandi stjórnvöld en skýra sig annars sjálfar.

Bókun um póstþjónustu 8. febrúar 2016:
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps mótmælir þeirri mismunun sem felst í þjónustuskerðingu Íslandspósts í fámennari byggðum landsins.  Jafnframt er varað við hugmyndum um afnám einkaréttar án þess að þjónustuviðmið séu sett og landsmönnum öllum tryggð póstþjónusta.  Póstþjónusta er hluti af grunnþjónustu í hverju samfélagi og á ekki að ráðast af arðsemissjónarmiðum einum saman.

Bókun um málefni hjúkrunarheimila 8. febrúar 2016:
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps hvetur stjórnvöld til að bregðast nú þegar við miklum rekstrarvanda hjúkrunarheimila, tryggja fullnægjandi fjármögnun og ljúka gerð þjónustusamninga við heimilin á réttum forsendum.  Það er algerlega ólíðandi að taprekstur hjúkrunarheimila af völdum vanfjármögnunar ríkisins geti leitt til niðurskurðar á lögboðinni þjónustu sveitarfélaga.  Það er skýrt í lögum að ríkinu ber að fjármagna þennan málaflokk og mun sveitarstjórn Grýtubakkahrepps fylgjast vel með málarekstri Garðabæjar á hendur ríkinu.  Þá bendir sveitarstjórnin á að það hlýtur að vera hagkvæmara að nýta þau hjúkrunarrými sem þegar eru til staðar áður en ráðist er í byggingu nýrra, enda ófært að láta hjúkrunarrými standa auð meðan þörfin er æpandi.  Kerfið er nú komið fram yfir þolmörk og frekari bið er ekki valkostur.

Bókun um Reykjavíkurflugvöll 22. febrúar 2016:
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps  skorar á ríkisstjórn Íslands og borgarstjórn Reykjavíkur að  tryggja öryggishagsmuni landsmanna allra sem og ferðamanna með óskertri starfsemi Reykjavíkurflugvallar. Skorað er á þessa aðila að draga ekki með gjörðum sínum úr öryggi sjúklinga og slasaðra sem þurfa að komast með hraði á Landspítalann þar sem staðsett er sérhæfð þjónusta.

Mikilvægt er að aðgengi að öflugustu heilbrigðisþjónustu landsmanna sé tryggt öllum og ber ríkisstjórn Íslands og borgarstjórn höfuðborgar landsins skylda til að tryggja þetta aðgengi.

Einnig  er bent á að megnið af stjórnsýslu landsins er staðsett í Reykjavík, sem og þjónusta við atvinnulífið í landinu.  Gott aðgengi að þeirri þjónustu er því afar mikilvægt fyrir íbúa landsbyggðanna.