Bati umfram áætlanir 2023 - framkvæmdatímar

Mikil ánægja var með framkvæmdir á skólalóðinni.
Mikil ánægja var með framkvæmdir á skólalóðinni.

Sveitarstjórn staðfesti ársreikning fyrir árið 2023 á fundi sínum 13. maí s.l.  Rekstrarbati varð heldur meiri en áætlað var og er það ánægjulegt eftir nokkur mögur rekstrarár.

Tekjuafgangur af rekstri A-hluta var 23,4 mkr. og af rekstri samstæðu A+B 26 mkr.  Áætlun hafði gert ráð fyrir jákvæðri afkomu samstæðu upp á 10,7 mkr.

Veltufé frá rekstri hækkaði mjög mikið og varð rúmar 80 milljónir en hafði verið áætlað 28 milljónir. Er það afar jákvæð þróun.

Eiginfjárhlutfall er 52,1% og lækkaði lítillega.  Sveitarstjórn ákvað að lækka lóðarleigu á árinu til að vega aðeins á móti hækkun fasteignamats, en sú lækkun gjalda leiddi af sér að endurmat lóða varð neikvætt sem minnkar hækkun eigin fjár.

Skuldaviðmið skv. reglum um fjármál sveitarfélaga er nú 39,1% og skuldahlutfall 49,7%.  Báðar tölur lækkuðu nokkuð á árinu.

Í heild er staða sveitarfélagsins því áfram afar sterk og rekstrarhorfur halda áfram að batna með þeirri uppbyggingu sem er í gangi og væntanlegri fólksfjölgun.

Árið 2023 einkenndist af miklum framkvæmdum og nam eignfærð fjárfesting nettó alls 85 milljónum.  Það er nokkuð umfram áætlun, en helstu frávik voru að sölu eldri dráttarvélar var frestað fram í janúar 2024, auk þess sem gengisbreytingar hækkuðu verð á þeirri nýju, nýframkvæmdir við veitur urðu meiri en reiknað var með, auk smærri liða. 

Þrátt fyrir þetta og einnig að hætt var við sölu íbúðar, þá tókst að komast hjá þeirri lántöku sem hafði verið áætluð.  Er það afar ánægjulegt í því vaxtaumhverfi sem er um þessar mundir.  Langtímaskuldir á árinu lækkuðu þrátt fyrir verulega verðbólgu, en tæpur helmingur langtímaskulda er óverðtryggður.

Sveitarstjórn stefnir að því að halda íbúafund í haust þar sem nánar verður farið yfir einstaka liði rekstrarins.