Bætt götulýsing á Grenivík

Það birti í Túngötu!
Það birti í Túngötu!

Sveitarstjórn ákvað í haust að hefja í ár led-væðingu ljósastaura á Grenivík.  Með því yrði lýsing bætt til muna en um leið náð fram orkusparnaði til framtíðar.

Í gær var skipt um hausa á ljósastaurum í Túngötu.  Þar sem mjög langt er á milli staura í götunni, var nokkur áskorun að finna hausa sem ná að lýsa upp götuna án þess að lýsa beint á lóðir og glugga húsa.  Reykjafell annaðist val hausa og var notað hermilíkan í tölvu til að skoða mismunandi lausnir en starfsmenn sveitarfélagsins sáu um undirbúning og vinnu við skiptin.

Áætlað er að nýju ljósahausarnir eyði um helmingi af því rafmagni sem eldri hausar notuðu, þrátt fyrir mikið meira ljósmagn.  Þeir eru snjallir og spara rafmagn með því að minnka ljósmagn um 20% yfir hánóttina, eða ca. milli  kl. 1:00 og 5:00.

Áfram verður unnið að endurnýjun götulýsingar, annar áfangi verður tekinn í sumar og verkið klárað á næstu árum.