Að sitja á sprengju

Góðæri, góðæri, góðæri.  Þetta glymur á þjóðinni úr öllum áttum og um margt erum við að upplifa svipaða hluti og fyrir rúmum áratug.  Þensla, góð sala í bílum, fasteignaverð hækkar og hækkar, utanlandsferðir renna út og skortur er á vinnuafli.  Sumt lítur þó mun betur út, viðskiptajöfnuður hefur lengst af verið jákvæður, skuldsetning hófleg og verðbólguþrýstingur lítill.  Raunar hefur verðbólga verið undir væntingum nokkur undanfarin ár og vel undir markmiði Seðlabankans.  Vaxtastig er þó hærra en æskilegt væri og seðlabankinn virðist alltaf leita að ástæðum til þess að halda vöxtum uppi frekar en að rökstyðja lækkanir.  Skuldsetning virðist líka vera að vaxa á ný og lánsframboð vel rýmilegt.

Þrátt fyrir þessa að mörgu leyti góðu stöðu, er maður með ónotatilfinningu og treystir ekki alveg ástandinu.  Miklar launahækkanir síðustu ár á sama tíma og krónan hefur styrkst mikið, þrengja að á mörgum sviðum atvinnulífs.  Í þessu góða ástandi hagkerfisins tekst okkur heldur ekki að sinna viðhaldi og uppbyggingu innviða með ásættanlegum hætti.  Vegakerfið, heilbrigðiskerfið, dreifing raforku, flugsamgöngur við landsbyggðina, fátækt, öldrunarþjónusta, allt er þetta reglulega í fréttum undir neikvæðum formerkjum.

Ef ástandið helst í megindráttum óbreytt, siglum við þó í rétta átt.  En það eru blikur á lofti sem þarf að huga að.  Ein ástæða þess hve vel hefur gengið, og ekki veigalítil, er lágt olíuverð.  Það styður við sjávarútveginn, flugsamgöngur til landsins, vinnur til lækkunar vísitölu og örvar hagkerfi okkar þannig á marga lund.  Ferðamannastraumur hefur vaxið gífurlega, jafnvel hættulega hratt, en nú hægir á, þó ekki sé farið að gæta samdráttar, ekki að marki alla vega.

Sagan segir manni að við nálgumst þann punkt að samdráttur verði.  Nú reynir því á hvort við höfum eitthvað lært af síðasta samdrætti sem varð raunar hrun.  Ef t.d. við fáum á sama tíma, óhagstætt eldgos sem slær á ferðalög og hræðir fólk frá landinu (tala nú ekki um ef það myndi loka Keflavíkurflugvelli), snarpa hækkun á olíuverði, ófriðarástand, eða einhverja óáran sem verðfellir okkar útflutingsafurðir, erum við þá með þjóðfélagið í stöðu til að taka við slíkum höggum?  Og önnur spurning ekki síður mikilvæg; Á hverjum munu slík högg lenda þyngst?  Ef ekkert verður að gert er alla vega klárt að áhhrifin dreifast öðru vísi en ef við t.d. byggjum við Evru og/eða værum án verðtryggingar.

Því miður eru líkur óþægilega miklar á að eitthvað af framantöldu geti gerst á næstunni.  Í þessum fjörkipp ferðaþjónustu hefur hún sölsað undir sig íbúðarhúsnæði og staðið á sama tíma í stórfelldum hótelbyggingum.  Ef snarpur samdráttur verður, losnar því um mikið húsnæði og á sama tíma minnkar þörf greinarinnar fyrir vinnuafl sem að töluverðum hluta er hreyfanlegt.  Við þær aðstæður losnar því enn meira íbúðarhúsnæði, kannski á sama tíma og bylgja af nýju kemst í gagnið, því við erum jú að bregðast við húsnæðisskorti með því að byggja.

Þetta myndar síðan þrýsting á gengið, sem getur leitt til verðbólgu.  Ef aðrar ytri aðstæður eru óhagstæðar á sama tíma, t.d. hækkun olíuverðs og/eða verðfall útflutningsafurða erum við komin í veruleg vandræði.  Fasteignaverð getur fallið skarpt á sama tíma og verðlag hækkar, með verulegri skerðingu kaupmáttar og hækkun lána.  Eins og okkar hagkerfi er samansett þá eru þessir kraftar svo stórir að við getum lent í mjög skörpum samdrætti fyrr en varir, enda þekkt að hagsveiflur byggjast á keðjuverkun og samverkun margra þátta og verða því gjarna snarpari en menn búast við, hvort heldur er upp eða niður.

Nú reynir á stjórnvöld hvernig þau stýra þjóðarskútunni.  Það er hægt að bregðast við fyrirfram, t.d. með því að breyta vísitölugrundvelli, t.d. að tengja vísitölu húsnæðislána meira við húsnæðisverð eða viðskiptajöfnuð með einhverjum hætti, eða afnema vísitölu á fjárskuldbindingar.  Það er fullkomlega órökrétt að versandi staða þjóðarbúsins, hækkun olíuverðs og lækkun afurðaverðs, geti leitt til mikillar hækkunar á peningalegum eignum og skuldum.  Við þær aðstæður verður til ýktur tilflutningur fjár frá þeim sem skulda verðtryggð lán til þeirra sem eiga verðtryggðar eignir.  Við þekkjum öfgafull dæmi um þessar sveiflur og erum alltof nærri síðustu stórsveiflu til að láta endurtaka sig án þess að bregðast við fyrirfram. 

Það unga fólk sem hefur síðustu misseri verið að fjárfesta í íbúðarhúsnæði á uppsprengdu verði í kappi við ferðaþjónustuna, hefur að langstærstum hluta fjármagnað kaupin með verðtryggðum langtímalánum.  Við þær aðstæður sem ég hef lýst að kunni að verða, munu eignirnar falla skarpt í verði á sama tíma og lánin hækka.  Eigið fé getur því horfið á augabragði og jafnvel orðið neikvætt.  Þá breytist lífshamingjan snöggt í áhyggjur og jafnvel hreina upplausn, ekki síst ef missir atvinnu fylgir með.

Höfum við eitthvað lært?  Þetta unga fólk, og raunar fleiri í þjóðfélaginu, það situr á sprengju.  Við vonum öll það besta og ef hún springur ekki, þá megum við sannarlega kallast heppin.  Ég tel hins vegar að það standi nú verulega upp á stjórnvöld að aftengja sprengjuna.  Eða a.m.k. búa svo vel um sem kostur er, til að við sjáum ekki enn einu sinni snarpan eignatilflutning, flótta ungs fólks til útlanda og upplausn í samfélaginu.  Það er ótækt að þykjast ekki sjá blikuna við hafsbrún og sigla bara óhikað og andvaralaust áfram.  Þetta blasir allt við okkur og við því þarf að bregðast.

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri