Sveitarstjórnarfundur nr. 518

31.03.2025 00:00

Sveitarstjórnarfundur nr. 518

Mánudaginn 31. mars 2025, kom sveitarstjórn Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu hreppsins að Túngötu 3 á Grenivík. Eftirtaldir sveitarstjórnarfulltrúar voru mættir; Gísli Gunnar Oddgeirsson, Þorgeir Rúnar Finnsson, Fjóla V. Stefánsdóttir, Gunnar B. Pálsson og Inga María Sigurbjörnsdóttir. Einnig sat sveitarstjóri fundinn.

Fundurinn hófst kl. 16:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

  1. Erindi frá sóknarnefnd Laufás- og Grenivíkursóknar, stækkun kirkjugarðs, dags. 8. mars 2025.

Hreinn Skúli Erhardsson mætti á fundinn fyrir hönd sóknarnefndar Laufás- og Grenivíkursóknar og kynnti hugmyndir um stækkun kirkjugarðsins við Grenivíkurkirkju. Sveitarstjórn líst vel á hugmyndir sóknarnefndar.

  1. Fundargerðir stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 7. feb., 28. feb. og 11. mars 2025.

Fundargerðir lagðar fram.

  1. Fundargerð stjórnar SSNE, dags. 17. mars 2025.

Fundargerð lögð fram.

  1. Fundargerð stjórnar Norðurorku, dags. 25. mars 2025.

Fundargerð lögð fram.

  1. Boð á aðalfund Flokkunar, haldinn 25. mars 2025.

Þröstur Friðfinnsson sótti fundinn og fór með umboð Grýtubakkahrepps. Áður samþykkt með tölvupóstum.

  1. Fundargerð stjórnar Flokkunar Eyjafjarðar ehf., dags. 25. mars 2025.

Fundargerð lögð fram.

  1. Fundargerð aðalfundar Flokkunar Eyjafjarðar ehf., dags. 25. mars 2025.

Fundargerð lögð fram.

  1. Skipulagsmál.

a. Stofnun lóðar, Réttarholt III.

Fyrir liggur umsókn um stofnun lóðarinnar Réttarholt 3, frá Halldóri Sigurbirni Höskuldssyni og Janette Höskuldsson. Sveitarstjórn samþykkir stofnun lóðarinnar Réttarholt 3 miðað við fyrirliggjandi uppdrátt og merkjalýsingu dags. 13. des. 2024, á grundvelli reglugerðar um merki fasteigna nr. 160/2024.

b. Ósk um stækkun lóðar, Höfðagata 9.

Fyrir liggur ósk Gunnþórs Ingimars Svavarssonar um að stækka lóðina nr. 9 við Höfðagötu um 2,5 metra til austurs.

Sveitarstjórn samþykkir erindið.

  1. Erindi frá Fiskistofu til jarðeigenda, netaveiði í sjó, dags. 17. mars 2025.

Erindi lagt fram.

  1. Boð á aðalfund og ársfund Norðurorku, haldnir 9. apríl 2025.

Gísli Gunnar Oddgeirsson fer með umboð sveitarfélagsins á aðalfundinum.

  1. Mál í Samráðsgátt, drög að frumvarpi um breytingar á lögum um veiðigjald.

Sveitarstjórn samþykkir eftirfarandi bókun samhljóða:

Íslenskur sjávarútvegur hefur á liðnum áratugum þróast í arðsama og hátæknivædda atvinnugrein. Nýsköpun hefur blómstrað í kringum greinina og hún hefur skilað þjóðarbúinu sívaxandi arði og gjaldeyristekjum. Fjárfesting hefur farið vaxandi sem hefur lyft undir margvíslegan iðnað og þjónustustarfsemi tengda greininni. Uppbygging í greininni hefur verið stór þáttur í að styrkja byggðir víða um land og jafnvel snúa við áratuga öfugþróun.

Grýtubakkahreppur hefur notið og verið hluti af þessari þróun. Í nýrri greiningu á uppruna útsvarstekna sveitarfélaga má sjá að árið 2024 stafaði 23,1% útsvarstekna hreppsins frá fiskveiðum og 16,6% frá fiskvinnslu. Samtals koma því rétt tæp 40% útsvarstekna Grýtubakkahrepps frá þessari mikilvægu grein. Samþætting veiða, vinnslu og sölu, órofin virðiskeðja, hefur aukið gæði afurða og hámarkað arð þjóðarinnar af greininni.

Sterklega er varað við þeim álögum sem nú eru áformaðar með hækkun veiðigjalda. Veruleg hætta er á að þær muni hægja á fjárfestingum og þar með nýsköpunar- og þróunarstarfi. Minni fjárfesting veldur keðjuverkandi samdrætti hjá afleiddum greinum. Til lengri tíma getur þetta síðan leitt til minnkandi arðsemi, minnkandi tekna fyrir þjóðina, einstaklinga, sveitarfélög og ríkið. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að glæsileg fiskvinnsla sé rekin á Grenivík.

Sérstaklega er hætt við að áhrifa hærri veiðigjalda muni gæta út um landið, ekki síst á minni stöðum sem eiga mikið undir margvíslegri vinnslu og úrvinnslu sjávarafurða. Hætt er við að breytingin leiði til enn frekari samþjöppunar og fækkunar fyrirtækja í sjávarútvegi. Stjórnvöldum ber að styðja við og efla atvinnulíf í landinu, styðja við verðmætasköpun, en ekki að ýta undir útflutning á óunnum afurðum. Samanburður við sjávarútveg í löndum þar sem verulegir ríkisstyrkir renna inn í greinina, er varasamur.

Það er því flestum ljóst að þetta er nokkuð hreinn landsbyggðarskattur, hann mun þrengja að skilyrðum atvinnulífs og þar með búsetu víða um landið. Ráðamenn tala um að tekjurnar eigi að fara „aftur“ út á land til að styrkja innviði, s.s. vegi sem ekki er vanþörf á. Slík loforð hafa til þessa oft verið létt í vasa, enda áratuga saga af sviknum loforðum um samgöngubætur.

Hægt er að ná sambærilegum tekjuauka fyrir ríkið með smávægilegri hækkun fjármagnstekjuskatts, og/eða þrepaskiptingu hans. Með því væri skattlagt það sem færi út úr greininni, fremur en leggja hamlandi álögur á greinina sjálfa. Með því væri einnig gætt jafnræðis milli atvinnugreina, enda víðar afar arðsöm starfsemi en í sjávarútvegi. Auknar tekjur má nota í samgöngubætur eftir atvikum, en einnig hefur lengi verið ljós þörf á að styrkja tekjustofna sveitarfélaga.

Aukin skattlagning fjármuna sem færu út úr fyrirtækjum, hvetur óbeint til þess að meira sé lagt í innri uppbyggingu þeirra og hefur þannig áhrif til aukningar á fjárfestingum og nýsköpunarstarfi. Það skilar sér í auknum tekjum til lengri tíma. Alkunn eru margfeldisáhrif fjárfestinga í hagkerfinu, á sama hátt keðjuverkandi samdráttaráhrif of mikillar skattlagningar og minnkandi fjárfestinga.

Stjórnvöld eru hvött til að meta þessi áhrif af raunsæi, meta áhrif á byggðir, sveitarfélög og afleidda starfsemi tengda sjávarútvegi. Minnt er á 129. grein sveitarstjórnarlaga. Það eru ekki góðir stjórnarhættir að hækka álögur verulega án þess að meta bein og óbein áhrif svo vel sem hægt er. Það er of seint að fara í greiningarvinnu þegar neikvæð áhrif hafa þegar komið fram.

Jafnframt tekur sveitarstjórn undir bókun Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga um málið.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:25.

Fundargerð ritaði Þorgeir Rúnar Finnsson