Sveitarstjórnarfundur nr. 470

29.12.2022 00:00

Sveitarstjórnarfundur nr. 470

Fimmtudaginn 29. desember 2022, kom sveitarstjórn Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu hreppsins að Túngötu 3 á Grenivík. Eftirtaldir sveitarstjórnarfulltrúar voru mættir; Gísli Gunnar Oddgeirsson, Þorgeir Rúnar Finnsson, Fjóla V. Stefánsdóttir, Gunnar B. Pálsson og Inga María Sigurbjörnsdóttir. Einnig sat sveitarstjóri fundinn.

Fundurinn hófst kl. 16:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

  1. Ákvörðun um útsvarsprósentu 2023, v. breytinga á fjármögnun þjónustu við fatlaða.

Fyrir liggur samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga, dags. 16.12.2022, varðandi fjármögnun þjónustu við fatlað fólk og hækkun útsvarsálagningar.

Tillaga til afgreiðslu:

Með vísan til ákvæða varðandi breytingu á fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk í fyrirliggjandi samkomulagi á milli ríkis og sveitarfélaga, dags. 16.12.2022, er byggir á breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem samþykkt var á Alþingi 16.12.2022, samþykkir sveitarstjórn Grýtubakkahrepps að álagningarhlutfall útsvars fyrir árið 2023 hækki um 0,22 prósentustig og verði 14,74%.

Sveitarstjórn samþykkir tillöguna og fellur fyrri samþykkt um útsvarsprósentu frá 5. des. 2022 þar með úr gildi.

(Til upplýsingar: Tekjuskattsprósenta til ríkisins lækkar á móti um 0,22 prósentustig, heildarskattbyrði launatekna helst því óbreytt)

  1. Kjarasamningsumboð til Sambands ísl. sveitarfélaga.

Sveitarstjórn samþykkir að framlengja ótímabundið fullt umboð til Sambands íslenskra sveitarfélaga til að annast kjarasamninga fyrir hönd Grýtubakkahrepps, sbr. erindi frá Sambandinu dags. 12. desember 2022. Jafnframt felur sveitarstjórn sveitarstjóra að annast frágang og undirritun samkomulags um umboðið fyrir hönd hreppsins.

  1. Samkomulag um sameiginlega ábyrgð v. kjaramála og MÁP gagnalón.

Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps samþykkir fyrirliggjandi samkomulag um sameiginlega ábyrgð og gagnalón um kjaraupplýsingar, sbr. erindi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga dags. 14. desember 2022. Sveitarstjóra er falið að annast frágang samkomulagsins sem og undirritun.

  1. Samningur um umdæmisráð barnaverndarmála.

Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps staðfestir fyrir sitt leyti, „samning um rekstur umdæmisráðs landsbyggða“, sem og verklagsreglur um framkvæmd umdæmisráðs barnaverndarmála, sbr. erindi frá Akureyrarbæ dags. 16.12.2022 og felur sveitarstjóra að undirrita samninginn. Samningurinn tekur gildi 1. janúar 2023.

  1. Reglur um viðbótargáma.

Sveitarstjórn samþykkir að fella úr gildi frá 1. janúar 2023, „reglur um viðbótargáma“ sem settar voru á fundi sveitarstjórnar þann 3. febrúar 2020.

Framvegis skulu einstaklingar sem og lögaðilar sjá sjálfir um að panta og greiða fyrir viðbótargáma beint hjá þjónustuaðila.

Áfram verður tekið við öllum úrgangsflokkum á gámasvæði sveitarfélagsins á Grenivíkurhólum án gjalds á auglýstum opnunartímum.

Íbúar eru hvattir til að vanda flokkun úrgangs og afla sér leiðbeininga um flokkun og frágang úrgangs þegar þeir panta sér gáma hjá þjónustuaðila. Með góðu skipulagi á tíma, góðri flokkun úrgangs og nýtingu gámasvæðis, má spara verulega fjármuni.

 

Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 17:16.

Fundargerð ritaði Þorgeir Rúnar Finnsson