Sveitarstjórnarfundur nr. 452

28.03.2022 00:00

Mánudaginn 28. mars 2022, kom sveitarstjórn Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu hreppsins að Túngötu 3 á Grenivík. Eftirtaldir sveitarstjórnarfulltrúar mættir; Fjóla V. Stefánsdóttir, Margrét Melstað, Haraldur Níelsson, Gunnar B. Pálsson og Gísli Gunnar Oddgeirsson. Einnig sat sveitarstjóri fundinn.

Fundurinn hófst kl. 17:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

 1. Fundargerð stjórnar Norðurorku, dags. 25. feb. 2022.

Fundargerð lögð fram.

 1. Fundargerð stjórnar Flokkunar Eyjafjarðar, dags. 9. mars 2022.

Fundargerð lögð fram.

 1. Fundargerð 36. afgreiðslufundar SBE, dags. 18. mars 2022.

Fundargerð lögð fram. Í lið nr.1 er lagt fram til kynningar breytingar á salerni nemenda í Grenivíkurskóla. Í lið nr.2 er Thomasi Martin Seiz veitt byggingarleyfi til niðurrifs íbúðarhúss á lóðinni Ægissíðu 14, Grenivík.

 1. Fundargerð fræðslu- og æskulýðsnefndar, dags. 16. mars 2022.

Fundargerð lögð fram.

 1. Boð á aðalfund Norðurorku, haldinn 31. mars 2022.

Þröstur Friðfinnsson og Fjóla V. Stefánsdóttir fara á fundinn. Fjóla V. Stefánsdóttir fer með umboð hreppsins á fundinum.

 1. Boð í 100 ára afmæli UMSE, haldið 9. apríl 2022.

Lagt fram til kynningar.

 1. Starfsmannamál.
 2. Forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar og tjaldsvæðis.

Ein umsókn hefur borist um starfið frá Birni Andra Ingólfssyni. Sveitarstjóra falið að ræða við umsækjanda með ráðningu í huga.

Fjóla V. Stefánsdóttir vék af fundi undir þessum lið.

 1. Frá dómsmálaráðherra, endurskipulagning sýslumannsembætta, dags. 21. mars 2022.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga bókaði eftirfarandi um málið á fundi sínum 25. mars 2022:

Í tilefni af fyrirhugaðri endurskipulagningu sýslumannsembætta leggur stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga áherslu á að horft verði sérstaklega til þess að tryggja jafnt aðgengi að þjónustu um allt land og að þjónusta ríkisins verði sem víðast á landinu. Stjórnin tekur undir mikilvægi þess að leggja stóraukna áherslu á stafræna þjónustu og að markmiðið með breytingunum verði að efla núverandi starfsemi og styrkja þær starfsstöðvar sem eru að þjónusta almenning um land allt. Einnig verði horft til þess að fjölga óstaðbundnum störfum og verkefnum utan höfuðborgarsvæðisins til að styðja við jákvæða byggðaþróun í landinu í samræmi við áherslur í byggðaáætlun. Þá hvetur stjórn sambandsins dómsmálaráðuneytið til að eiga í góðu samstarfi við landshlutasamtök og sveitarfélög í landinu áður en til breytinga kemur svo að tryggt verði að hlustað sé á raddir þeirra sem breytingarnar koma til með að hafa áhrif á.“

Sveitarstjórn tekur undir bókunina en varar jafnframt við því að verðmæt störf flytjist af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið, æðstu embætti geta verið út á landi ekki síður en á höfuðborgarsvæðinu.

 1. Byggðakvóti 2021/2022.

Borist hefur erindi frá Víði Jónssyni, útgerðarmanni Fengs ÞH, vegna sölustöðvunar á grásleppuafurðum v. covid ástands, en það er óbreytt frá síðustu tveim árum.

Sveitarstjórn samþykkir eftirfarandi viðauka við áður sendar tillögur að úthlutunarreglum:

Vegna breytinga/stöðvunar á vinnslu grásleppu vegna Covid-19, er fallið frá vinnsluskyldu á Grenivík vegna byggðakvóta 2021/22, í tilviki báta sem eru með leyfi til grásleppuveiða.

 1. Styrkúthlutun frá húsafriðunarsjóði, dags. 23. mars 2022.

Húsafriðunarsjóður hefur veitt sveitarfélaginu styrk kr. 300.000,- til að meta ástand og varðveislugildi sláturhússins við Akurbakkaveg.

 1. Húsnæðisáætlun Grýtubakkahrepps 2022.

Farið yfir drög að húsnæðisáætlun, staðfestingu frestað.

 1. Frá umhverfis- orku- og loftslagsráðuneyti, EU Missions, Climate charter facsimile, dags. 17. mars 2022.

Lagt fram.

 1. Frá Íslandsdeild Transparency International, styrkbeiðni, dags. 22. mars 2022.

Erindinu hafnað.

 1. Mál í Samráðsgátt, drög að auglýsingu ráðherra um skýrslu minni sveitarfélaga eftir kosningar 2022/2026.

Sveitarstjóra er falið að vinna að umsögn um málið í samvinnu við önnur minni sveitarfélög.

Fleira ekki tekið fyrir og fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 21:15.

Fundargerð ritaði Margrét Melstað.