Sveitarstjórnarfundur nr. 439

13.09.2021 00:00

Mánudaginn 13. september 2021, kom sveitarstjórn Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu hreppsins að Túngötu 3 á Grenivík. Eftirtaldir sveitarstjórnarfulltrúar mættir; Fjóla V. Stefánsdóttir, Margrét Melstað, Haraldur Níelsson, Gunnar B. Pálsson og Gísli Gunnar Oddgeirsson. Einnig sat sveitarstjóri fundinn.

Fundurinn hófst kl. 17:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

 1. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 27. ágúst 2021.

Fundargerð lögð fram.

 1. Fundargerð stjórnar Hafnasamlags Norðurlands, dags. 1. sept. 2021.

Fundargerð lögð fram.

 1. Fundargerð 27. afgreiðslufundar SBE, dags. 27. ágúst 2021.

Fundargerð lögð fram.

 1. Skipulagsmál:

a.  Höfði Lodge, framkvæmdaleyfi v. fráveitu ofl..

Höfði development ehf. sækir um framkvæmdaleyfi vegna niðursetningar á tönkum, rotþró, siturbeði og viðeigandi stofnlögnum við Höfði Lodge á Skælu. Erindinu fylgja uppdrættir frá VSÓ ráðgjöf dags. 26. ágúst 2021 og jákvæð umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.

Sveitarstjórn samþykkir erindið.

b.  Ártún lóð L180002, breytt staðfang.

Sveinn Sigurbjörnsson óskar eftir því að staðfangi lóðarinnar Ártún lóð, landnúmer L180002, verði breytt í Ártún 2.

Sveitarstjórn samþykkir erindið.

c.  Deiliskipulag, Ægissíða, Túngata, Lækjarvellir.

Tillaga að deiliskipulagi fyrir Ægissíðu, Túngötu og Lækjarvelli var auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrr í sumar. Athugasemdafrestur vegna skipulagstillögunnar var til 20. ágúst sl. og bárust fjögur erindi vegna málsins á auglýsingartímabilinu auk tveggja erinda sem bárust fyrr í skipulagsferlinu. Sveitarstjórn fjallar um innkomin erindi í þeirri röð sem á eftir fer.

         1.  erindi, sendandi Minjastofnun

Athugasemd a) Sendandi telur að í greinargerð deiliskipulags ætti að tilgreina hvaða hús á skipulagssvæðinu væri tilkynningarskylt sökum aldurs, byggingarár þess, tegund húsnæðis, hönnuð, aðrar viðeigandi upplýsingar sem og rökstuðning varðveislumats í samræmi við staðla Minjastofnunar.

Afgreiðsla sveitarstjórnar: Sveitarstjórn samþykkir að upplýsingar um tilkynningarskylt hús á skipulagssvæðinu séu færðar inn í greinargerð deiliskipulags skv. athugasemd sendanda.

Athugasemd b) Sendandi telur að gera skuli grein fyrir fornminjaskráningu í greinargerð deiliskipulags sem og að merkja skráðar fornminjar inn á skipulagsuppdrátt.

Afgreiðsla sveitarstjórnar: Sveitarstjórn samþykkir að upplýsingum um fornminjaskráningu og niðurstöður hennar sé bætt inn í greinargerð deiliskipulags og að skráðar fornminjar verði merktar inn á uppdrátt deiliskipulags.

Athugasemd c) Sendandi minnir á ákvæði laga um menningarminjar nr. 80/2012 þar sem m.a. kemur fram að ef óskráðar minjar finnast við framkvæmdir beri að stöðva framkvæmdir og gera Minjastofnun viðvart.

Afgreiðsla sveitarstjórnar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

         2. erindi, sendandi Norðurorka

Athugasemd a) Sendandi bendir á að stofnar hitaveitu á Grenivík séu sæmilega burðugir og eigi flestir að ráða við fyrirhugaða stækkun. Þó þurfi líklega að leggja lögn úr Kirkjuvegi í Lækjarvelli um göngustíg milli gatnanna og setja þurfi kvöð þess efnis í deiliskipulagi.

Afgreiðsla sveitarstjórnar: Sveitarstjórn samþykkir að kvöð um hitaveitulögn í göngustíg milli Kirkjuvegar og Lækjarvalla skuli færð inn á deiliskipulagsuppdrátt.

Athugasemd b) Sendandi áréttar að kostnaður við færlsu núverandi veitulagna vegna úthlutunnar nýrra byggingarlóða falli á þann sem breytingarinnar óskar.

Afgreiðsla sveitarstjórnar: Gefur ekki tilefni til bókunar.

3. erindi, sendandi Arnþor Pétursson og Oddný Jóhannsdóttir, Ægissíðu 13. Erindið barst við kynningu á skipulagstillögu á vinnslustigi í maí 2021.

Sendendur vísa til grenndarkynningar sem fram fór fyrir nokkrum árum vegna áforma um byggingu tveggja húsa á lóðinni Ægissíðu 14. Í auglýstri skipulagstillögu er gert ráð fyrir að heimilt verði að rífa hús sem fyrir er á lóðinni og skipta henni upp í tvær lóðir með sitt hvoru einbýlishúsinu. Sendendur ítreka andstöðu sína við þessi áform.

Afgreiðsla sveitarstjórnar: Sveitarstjórn áréttar að ekki hafi farið fram grenndarkynning á vegum sveitarfélagsins vegna áforma um að skipta lóðinni Ægissíðu 14 í tvennt heldur muni kynningin sem sendendur vísa til hafa verið á vegum einkaaðila. Með hliðsjón af stærð lóðarinnar Ægissíðu 14 (1224 fm) telur sveitarstjórn að eðlilegt sé að horfa til þess að nýta hana betur en gert er í dag, enda rúmi lóðin með góðu móti tvö lítil hús líkt og gert er ráð fyrir í auglýstri skipulagstillögu án þess að gengið sé gegn ríkjandi byggðarmynstri á svæðinu eða götumynd. Með byggingarskilmálum megi tryggja að hæð bygginga á lóðinni verði í samræmi við núverandi byggingu og að áhrif á útsýni af grannlóðum verði hófleg. Sveitarstjórn samþykkir því að skilmálum um mænishæð húsa sé bætt við deiliskipulagið og ennfremur að sett sé ákvæði um hámarks byggingarmagn 240 fm á lóðinni.

4.  erindi, sendandi Hildur Björk Benediktsdóttir og Stefán Hrafn Stefánsson, Ægissíðu 7. Erindið barst við kynningu á skipulagslýsingu í október 2020.

Sendendur mótmæla áformum um skilgreiningu nýrrar íbúðarlóðar (Ægissíðu 6) á svæðinu gengt íbúðarhúsi þeirra við Ægissíðu 7. Sendendur telja breytinguna fela í sér lífsgæðaskerðingu og að hún hafi neikvæð áhrif á verðgildi fasteignar þeirra að Ægissíðu 7. Sendendur benda á að útsýni úr húsi þeirra til Hríseyjar hafi skipt máli þegar þau ákváðu að kaupa hús sitt og þau telja einnig að breytingar sem þau hafa gert á húsi sínu miðað við núverandi aðstæður séu unnar fyrir gíg ef af áformum um byggingu húss á lóðinni Ægissíðu 6 verður.

Afgreiðsla sveitarstjórnar: Sveitarstjórn telur að eðlilegt sé að horfa til þess að nýta svæðið sem skilgreint er sem Ægissíða 6 í auglýstri skipulagstillögu betur en gert er í dag, enda megi með góðu móti koma fyrir litlu húsi á lóðinni án þess að gengið sé gegn byggðarmynstri á svæðinu eða götumynd. Sveitarstjórn telur að með byggingarskilmálum megi tryggja að bygging á lóðinni verði lágreist og áhrif á útsýni af grannlóðum verði hófleg. Sveitarstjórn telur að þó að hús verði reist á lóðinni samkvæmt auglýstri skipulagstillögu þá verði eftir sem áður ágætt útsýni út á fjörðinn úr Ægissíðu 7. Sveitarstjórn samþykkir að ákvæði um mænishæð byggingar á lóðinni Ægissíðu 6 verði bætt við deiliskipulag.

Ekki eru gerðar athugasemdir við efnislegt innihald deiliskipulagstillögunnar í erindum sem bárust frá Vegagerðinni og Umhverfisstofnun.

Sveitarstjórn samþykkir skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga deiliskipulag fyrir Ægissíðu, Túngötu og Lækjarvelli með þeim breytingum sem fram koma í fyrrgreindri afgreiðslu á athugasemdum 1a, 1b, 2a, 3 og 4. Sveitarstjórn felur skipulagsfulltrúa að fullnusta gildistöku deiliskipulagsins.

 1. Kjörskrá vegna Alþingiskosninga 25. sept. 2021.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og oddvita að yfirfara kjörskrá, staðfesta hana og leggja fram í umboði sveitarstjórnar.

 1. Boð á aukaþing SSNE, haldið 1. október 2021.

Lagt fram.

 1. Erindi frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, breytingar á leiðbeiningum um ritun fundargerða og notkun fjarfundarbúnaðar, dags. 2. sept. 2021.

Erindi lagt fram.

 1. Erindi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, innleiðing laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, dags. 31. ágúst 2021.

Erindi lagt fram.

 1. Erindi frá Unicef, barnvæn sveitarfélög, dags. 3. sept. 2021.

Sveitarstjórn vísar erindinu til félagsmálanefndar til skoðunar.

 1. Erindi frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, kynheilbrigði og virkar ofbeldisvarnir, dags. 8. sept. 2021.

Erindi lagt fram.

 1. Málefni Skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar, efling starfseminnar.

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að vinna að málinu áfram í takt við umræður í sveitarstjórn.

 1. Erindi frá skólastjóra Grenivíkurskóla, hádegisgæsla og föstudagsfrágangur, dags. 3. sept. 2021.

Sveitarstjórn samþykkir að greiða kr. 120.000,- vegna hádegisgæslu og föstudagsfrágangs veturinn 2021-2022. Upphæðin er innan fjárhagsáætlunar.

 1. Staða húsnæðismála á Grenivík, framhald umræðu.

Sveitarstjórn ræddi stöðu og horfur í húsnæðismálum og felur sveitarstjóra að vinna áfram að undirbúningi að frekari uppbyggingu húsnæðis.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 20:00.

Margrét Melstað ritaði fundargerð.