Sveitarstjórnarfundur nr. 397

19.08.2019 00:00

Sveitarstjórnarfundur nr. 397

Mánudaginn 19. ágúst 2019, kom sveitarstjórn Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu hreppsins að Túngötu 3 á Grenivík.  Allir aðalfulltrúar mættir, einnig sat sveitarstjóri fundinn. 

Fundurinn hófst kl. 17:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1.  Fundargerð stjórnar Atvinnuþróunarf. Eyjafjarðar, dags. 14. ágúst 2019.

            Fundargerð lögð fram.                                  

2.  Fundargerð starfshóps um friðlýsingu Skagans, dags. 27. apríl 2019.

            Tekin fyrir fundargerð starfshóps Grýtubakkahrepps og Þingeyjarsveitar frá 27. apríl s.l. um friðlýsingu skagans milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa. 

Sveitarstjórn tekur heilshugar undir sjónarmið starfshópsins sem fram koma í fundargerðinni en þar segir m.a.:

Skaginn hefur nú þegar verið skilgreindur í skipulagi sveitarfélaganna sem hverfisverndarsvæði og gætu þau svæði verið innan friðlýsingaráforma, að minnsta kosti hverfisverndarsvæði sveitarfélaganna fari í friðlýsingu, í samráði við landeigendur en það er að mati hópsins algjört skilyrði fyrir því að af friðlýsingu geti orðið.

Það er jafnframt mat hópsins að til þess að af friðlýsingu geti orðið þurfi að vera skýrt hver not svæðisins séu í dag og hvernig það geti komið til með að þróast. Friðlýsing með sjálfbærri nýtingu feli a.m.k. í sér:

 • Fjármagn
 • Nýting og smölun beitilanda
 • Smalamennskur á hestum, hjólum, drónum o.s.frv
 • Ferðaþjónustu
 • Fjöldastýring
 • Vetrar- og sumarferðaþjónusta
 • Landgræðslu
 • Veiði
 • Litlar rennslisvirkjanir
 • Skráningu fornminja
 • Stígagerð og merking gönguleiða
 • Uppbygging áningastaða
 • Vegagerð
 • Kortlagning gróðurs
 • Verndun gróðurfars með beit.
 • Landvarsla

Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að koma þessu áliti, í samráði við sveitarstjóra Þingeyjarsveitar, til stjórnvalda.

3.  Erindi frá Sýslumanni, tímabundið áfengisleyfi fyrir Kontorinn, dags. 23. júlí 2019.

Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við áfengisleyfið, áður samþykkt með tölvupóstum.

4.  Erindi frá skólastjóra Grenivíkurskóla, hádegisgæsla nemenda, dags. 14. ágúst 2019.

Sveitarstjórn samþykkir að greiða kr. 65.000,- vegna hádegisgæslu veturinn 2019-2020. Upphæðin er innan fjárhagsáætlunar.

5.  Erindi frá Örnefnanefnd, staðarheiti á ensku, dags. 26. júní 2019.

            Erindið lagt fram.

6.  Erindi frá Norðurorku v. lántöku, dags. 15. ágúst 2019.

            Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps samþykkir að veita einfalda ábyrgð, veðsetningu í tekjum til tryggingar ábyrgð og veiting umboðs til að undirrita lánasamning og taka að sér þær skuldbindingar sem greinir í lánsamningi vegna láns Norðurorku hf. frá Lánasjóði sveitarfélaga:          

Sveitarfélagið Grýtubakkahreppur samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að veita einfalda ábyrgð og veðsetja til tryggingar ábyrgðinni tekjur sínar, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, til tryggingar láns Norðurorku hf. hjá Lánasjóði sveitarfélaga með útgreiðslufjárhæð allt að kr. 800.000.000. Sem skiptist í 100.000.000 íslenskra króna (ISK) og 5.000.000 evra (EUR) til 15 ára, í samræmi við skilmála að lánstilboði sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér. Nær samþykki sveitarstjórnar jafnframt til undirritunar lánasamnings og að sveitarfélagið beri þær skyldur sem þar greinir. Eignarhlutur Grýtubakkahrepps í Norðurorku hf. er 0,1817% og er hlutdeild sveitarfélagsins í þessari ábyrgð því kr. 1.453.600,-

Er lánið tekið til fjármögnunar á verkefnum félagsins í fráveitu og hitaveitu sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Þresti Friðfinnssyni, sveitarstjóra Grýtubakkahrepps, kt. 260861-2479, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Grýtubakkahrepps að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

7.  Vélsmiðjan Vík ehf., aðalfundarboð, haldinn 29. ágúst 2019.

            Fjóla V. Stefánsdóttir fer með umboð hreppsins á fundinum.

8.  Aukalandsþing Sambands ísl. sveitarfélaga 6. sept. 2019 – Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga.

Rætt um þingsályktunartillöguna, umræðu frestað. Kjörinn fulltrúi á landsþing er Fjóla V. Stefánsdóttir og til vara Haraldur Níelsson. Til viðbótar er kjörinn annar varamaður Margrét Melstað.

Oddviti leitar afbrigða um að taka á dagskrá lið nr. 9. Afbrigði samþykkt.

9. Skógræktarverkefni í Kolgerði, erindi dags. 13. ágúst 2019.

Ábúendur í Kolgerði sækja um framkvæmdaleyfi til skógræktar. Sveitarstjórn samþykkir veitingu framkvæmdaleyfis fyrir sitt leyti.

Gunnar B. Pálsson vék af fundi undir þessum lið.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.  Fundi slitið kl. 20:30.

Margrét Melstað ritaði fundargerð.