Sveitarstjórnarfundur nr. 368

12.03.2018 00:00

Sveitarstjórnarfundur nr. 368

Mánudaginn 12. mars 2018, kom sveitarstjórn Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu hreppsins að Túngötu 3 á Grenivík.  Allir aðalfulltrúar mættir, einnig sat sveitarstjóri fundinn. 

Fundurinn hófst kl. 17:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1.  Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, heimsókn starfsmanna.

            Starfsmenn frá AFE komu á fundinn og sögðu frá því helsta sem AFE er að bardúsa.

2.  Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, dags. 23. feb. 2018.

            Fundargerðin lögð fram.

3.  Fundargerð stjórnar Eyþings, dags. 2. mars 2018.

            Fundargerðin lögð fram.

4.  Boð á aðalfund Lánasjóðs sveitarfélaga sem verður haldinn 23. mars 2018.

            Lagt fram.

5.  Boð á aðalfund Norðurorku sem verður haldinn 6. apríl 2018.

            Lagt fram.  Sveitarstjóri fer á fundinn sem fulltrúi Grýtubakkahrepps.

6.  Þingsályktunartillaga um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, frá nefndasviði Alþingis, dags. 26. feb. 2018.

            Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps fagnar framkominni þingsályktunartillögu og skýrum vilja stjórnvalda til að jafna og efla búsetuskilyrði um landið.  Með tengingu lykilsvæða verði landið eitt raforkusvæði til framtíðar, sbr. skýringar við lið 7 í greinargerð, en það er afar mikilvægt m.t.t. jafnræðis, miðlunar og nýtingar orku, öryggis og hagkvæmni kerfisins.

Sveitarstjórn telur algert bann við línulögnum yfir hálendið ótímabært, enda getur slíkt bann torveldað mjög og jafnvel komið í veg fyrir að framangreint markmið um eitt raforkusvæði megi nást.

Sveitarstjórn telur einnig nauðsynlegt að notkun orða og hugtaka sé skýr og merking óumdeild. Komið hefur fram að ekki eru allir sammála um merkingu, t.d. orðanna;  Línulagnir, hálendið og lykilsvæði.

Sveitarstjórn hvetur Alþingi til að huga vel að innra samræmi ályktunarinnar, að einstakar greinar vinni ekki gegn öðrum eða markmiðum hennar í heild.  Sérstaklega skal tekið undir það sem segir í 5. lið:  „Gæta skal jafnvægis milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra áhrifa við uppbygginguna“.

7.  Erindi frá Vegagerðinni, umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnisvinnslu í námu í Grefilsgili, dags. 2. mars 2018.

            Sveitarstjórn telur að framkvæmdin sé ekki matsskyld v. umhverfisáhrifa og felur sveitarstjóra í samráði við skipulagsfulltrúa að annast útgáfu framkvæmdaleyfis.

8.  Erindi frá Búfesti hsf., um hagkvæmar íbúðabyggingar, dags. 22. febrúar 2018.

            Sveitarsjórn hvetur Búfesti hsf eindregið til að sækja um lóð til íbúðabyggingar í sveitarfélaginu. 

9.  Erindi frá Bolla Pétri Bollasyni, v. Þönglabakkamessu 2018.

            Erindinu hafnað.

10.  Arctic Coast Way, þriðja áfangaskýrsla.

            Lagt fram.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.  Fundi slitið kl.  19.47

Ásta F. Flosadóttir ritaði fundargerð.