Sveitarstjórn

06.05.2013 00:00

Sveitarstjórnarfundur nr. 262

Mánudaginn 6. maí 2013 kom sveitarstjórn Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps. Allir sveitarstjórnarmenn mættir ásamt sveitarstjóra. Fundurinn hófst kl. 17:00

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Sigurður Steingrímsson kom á fundinn og kynnti FabLab. Hugmyndir standa til þess að koma upp stafrænni smiðju við Eyjafjörð.

2. Guðni Sigþórsson verkstjóri Grýtubakkahrepps kom á fundinn. Rætt var um opnunartíma á gámaplani, stöðu mála varðandi neysluvatn og mengunarmælingar við útrásir sem komu afar vel út nú í apríl.

3. Fundargerð Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra frá 24. apríl 2013. Lögð fram.

4. Bréf frá 7. og 8. bekk Grenivíkurskóla, dags. 30. apríl 2013. Er verið að fylgja eftir bréfi sem 7. og 8. bekkur Grenivíkurskóla skrifaði fyrir rúmu ári varðandi heitt vatn sem rennur úr hitaveituröri vestan við Krók og þaðan niður í fjöru og út í sjó. Eru unglingarnir að velta fyrir sér hvort sveitarstjórn hafi skoðað þetta mál frekar. Sveitarstjóra falið að svara erindinu.

5. Bréf frá Þorsteini Þormóðssyni húsverði, ódagsett.  Er hann að vekja athygli á að ekkert hjartastuðtæki er í íþróttamiðstöðinni. Sveitarstjóra falið að kaupa tæki og verður það fjármagnað af eigin fé.

6. Bréf frá Icefitness ehf, dags. í apríl 2013. Er verið að leita eftir fjarhagslegum stuðningi við skólahreystiverkefnið að upphæð kr. 50.000,-.  Samþykkt að veita styrk að upphæð kr. 20.000,-. Gert hafði verið ráð fyrir styrk til verkefnisins í fjárhagsáætlun.

7. Bréf frá Íþróttafélaginu Magna, dags. 30. apríl 2013. Farið er fram á styrk til félagsins sem nemur einum starfsmanni í 4-6 vikur í sumar vegna skemmda sem hafa orðið á íþróttavellinum í vetur vegna snjóa. Afgreiðslu frestað.

8. Lagt fram minnisblað varðandi eyðingu á lúpínu.  Sveitarstjóra falið að afla frekari upplýsinga.

9. Samþykktir um hunda- og kattahald í Grýtubakkahreppi. Rætt um endurskoðun samþykktanna, ákveðið að gera ekki breytingar.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 20:20.