Sveitarstjórn

04.02.2008 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 152

Mánudaginn 4. febrúar 2008 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps í Gamla skólanum.  Allir hreppsnefndarmenn mættir ásamt sveitarstjóra. Fundurinn hófst kl. 17:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Eiður Guðmundsson hjá Flokkun ehf. kom á fundinn. 
Eiður kynnti tilurð Flokkunar ehf. og hvaða þjónustu fyrirtækið býður. Þar sem Flokkun ehf. er í raun arftaki Sorpeyðingar Eyjafjarðar bs. liggur fyrir að gera þarf samning um þá þjónustu sem Sorpeyðing Eyjafjarðar bs. sá um áður og mögulega um aðra þætti sem snúa að meðhöndlun úrgangs. Samþykkt að samningsdrög verði tekin fyrir á næsta fundi.

2. Fundargerðir stjórnar Eyþings frá 19. desember 2007 og 17. janúar 2008.
Lagðar fram.

3. Bréf frá Kirkjuráði dags. 23. janúar 2008.
Kirkjuráð er að tilkynna bókun sem gerð var á fundi þeirra 13. desember 2007 varðandi búsetu í Laufási í Grýtubakkahreppi.  Jón Helgi vék af fundi meðan þessi liður var ræddur. Sveitarstjórn samþykkir eftirfarandi bókun:
„Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps lýsir yfir miklum vonbrigðum með samþykkt Kirkjuráðs frá 13. desember 2007, og afgreiðslu stjórnar prestssetra þann 25. janúar 2008, varðandi málefni Laufáss.  Kirkjuráð beinir því til stjórnar prestssetra að Þórarni Inga Péturssyni verði boðið að leigja jörðina, án hlunninda, í 4 ár en með því skilyrði að Þórarinn fjarlægi íbúðarhús sitt af jörðinni í vor. 
Sveitarstjórn telur að hér sé um að ræða óaðgengilega afarkosti fyrir ábúendur Laufáss og óttast mjög um áframhaldandi búrekstur í Laufási.  Það er að mati sveitarstjórnar afskaplega undarlegt að Þórarni sé boðin leiga á jörðinni en verði að fara með íbúðarhúsið í burtu á sama tíma.  Sveitarstjórn beinir því til stjórnar prestssetra að Þórarni Inga Péturssyni verði boðinn lengri leigutími og að íbúðarhúsið fái að standa út leigutímann.  Þá vill sveitarstjórn minna biskup Íslands og stjórn prestssetra á að vilji sóknarbarna í þessu máli er afar skýr, sbr. undirskriftalista þann er biskupi var afhentur þann 18. október 2007.“

4. Bréf frá Vegagerðinni dags. 23. janúar 2008. 
Með bréfi þessu er Vegagerðin að svara bréfi sveitarstjórnar dags. 10. janúar 2008 er varðar girðingar meðfram Grenivíkurvegi, lýsingu við Lundsbraut og vegrið á Grenivíkurvegi.  Verið er að taka út girðingar meðfram Grenivíkurvegi og þegar þeirri úttekt lýkur og kostnaður liggur fyrir er rétt að skoða möguleika á úrbótum á girðingum til að auka öryggi vegfarenda.  Gert er ráð fyrir að lýsing við Lundsbraut verði á vegaáætlun 2009. Vegagerðin er reiðubúin að kanna aðstæður fyrir endurskoðun öryggisáætlunar og meta hvort tilefni sé til uppsetningar vegriða á hættulegustu stöðunum við Grenivíkurveg. Bréfið lagt fram og lýsir sveitarstjórn vilja sínum um að könnun á hættulegum stöðum á Grenivíkurvegi, m.t.t. uppsetningar vegriða, fari fram hið fyrsta.
 
5. Bréf frá Akureyrarbæ dags. 24. janúar 2008.
Verið er að tilkynna bókun sem bæjarráð gerði á fundi sínum 24. janúar 2008 um Öldrunarheimili Akureyrarbæjar – viðauki við samning um aðgangsrétt nágrannasveitarfélaga.  Bæjarráð álítur að Grýtubakkahreppur hafi verið að segja upp frá sl. áramótum fyrirliggjandi samningi með höfnun sinni á viðaukanum. Lagt fram.

6. Bréf frá Gásakaupstað ses dags. 23. janúar 2008.
Verið er að óska eftir því að Grýtubakkahreppur og Gásakaupstaður ses geri með sér styrktarsamning til 5 ára. Erindinu hafnað.

7. Bréf frá Norðurlandsskógum dags. 23. janúar 2008. 
Norðurlandsskógar eru að bjóða sveitarfélögum á Norðurlandi að fá til sín kynningu á stöðu verkefnisins og framtíðaráformum. Lagt fram.

8. Minnisblað vegna Búseta dags. 23. janúar 2008. 
Til umræðu er hugsanlegt samstarf við Búseta vegna leiguíbúða.  Samþykkt að óska eftir fundi með forsvarsmönnum Búseta.

9. Tölvupóstur frá Árna Birni Árnasyni dags. 28. janúar 2008.
Árni Björn er að óska eftir styrk til heimasíðugerðar um bátasmíðar í Eyjafirði, í formi auglýsingar. Lagt fram.

10. Þriggja ára áætlun Grýtubakkahrepps, seinni umræða (áður send gögn). 
Seinni umræðu lokið, þriggja ára áætlun samþykkt.
      Ár   Rekstrarafgangur samstæðu
2009                  766 þ.kr.
2010                  962 þ.kr.
2011               1.475 þ.kr.


11. Ráðstefnur:
a) Ráðstefna um Staðardagskrá 21 haldin í Hveragerði
8. og 9. febrúar 2008.
Lagt fram.
b) Ráðstefna um snjóflóðavarnir, skipulagsmál og samfélagsmál haldin á Egilsstöðum 11.-14. mars 2008. Lagt fram.
c) Almenningssamgöngur - Fundur um stefnumótun í samgöngum haldinn í Reykjavík 7. febrúar 2008. Lagt fram.
d) VETUR 2008 – Ráðstefna Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu haldin á Akureyri 2.-4. apríl 2008. Lagt fram.


Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 19:50.