Sveitarstjórn

18.06.2007 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 139

Mánudaginn 18. júní 2007 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps.  Allir hreppsnefndarmenn mættir nema Fjóla Stefánsdóttir.  Í hennar stað sat Jenný Jóakimsdóttir fundinn. Einnig sat sveitarstjóri fundinn sem hófst kl. 17:00.  Jón Helgi stýrði fundi.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Kosning oddvita og varaoddvita.
Fjóla endurkjörin oddviti og Jón Helgi varaoddviti

2. Kosning eins skoðunarmanns og tveggja til vara.
Nauðsyn reyndist að kjósa nýja aðal- og varamenn, þar sem Þórður Stefánsson baðst undan embættinu og varamenn reyndust báðir vanhæfir.
Hrönn Geirsdóttir kjörin skoðunarmaður,  Guðjón Þórsteinsson fyrsti varamaður og Sigurlaug Sigurðardóttir annar varamaður.

3. Fundargerð stjórnar Minjasafnsins á Akureyri frá 23. maí 2007.
Fundargerðin lögð fram.

4. Fundargerð fræðslu- og æskulýðsnefndar frá 5. júní 2007.
Fundargerðin samþykkt.  Samþykkt að heimila breytingar á leikskólanum vegna inntöku yngri barna.  Áætlaður kostnaður er u.þ.b. 100.000 kr.  Vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.

5. Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 5. júní 2007.
Í lið 1 er Ferðafélagið Fjörðungur að sækja um leyfi til að byggja sæluhús fyrir ferða- og gangnamenn á Látrum á Látraströnd á grunni gamla íbúðarhússins.  Nú er komið jákvætt svar frá Skipulagsstofnun en áður voru komin jákvæð svör frá Umhverfisstofnun og Fornleifavernd. Í lið 2 er Jóhann G. Hauksson, Bakkasíðu 9, Akureyri að sækja um leyfi til að byggja sumarhús á lóð nr. 13 við Sunnuhlíð á Grenivík.
Fundargerðin lögð fram og sveitarstjórn samþykkir lið 1og 2 fyrir sitt leyti.

6. Bréf frá Stefáni Kristjánssyni dags. 4. júní 2007.
Stefán sendir erindi vegna upprekstrarmálefna.  M.a. óskar hann eftir að fá upplýsingar frá sveitarstjórn um hvað sé heimaland, hvað upprekstrarland og afréttur.
Sveitarstjórn samþykkir að leita álits sauðfjárbænda á tilvist fjallsgirðingarinnar ofan Grýtubakka og Kolgerðis.  Ennfremur er sveitarstjóra falið að svara bréfinu með vísan í fjallskilasamþykkt Héraðsnefndar Eyjafjarðar.

7. Bréf frá 2. og 3. bekk Grenivíkurskóla.  Efni: Skoðunarferð á gámasvæði Grýtubakkahrepps.
Börnin fóru með kennara í vettvangsferð á gámasvæðið og fannst ýmislegt athugavert við svæðið og umgengni við gámana.  Nemendum er þakkað mikið og vel fyrir þarfar ábendingar.  Rætt um merkingu gámanna og samþykkt að setja leiðbeiningar á svæðið.  Sveitarstjórn hvetur sveitunga alla til að leggjast á eitt og ganga vel um gámasvæðið.  Umgengni lýsir innri manni.

8. Bréf frá Landsmóts- og unglingalandsmótsnefnd HSÞ dags. 6. júní 2007. Efni: Umsókn um Landsmóts- og unglingalandsmótsstyrk að upphæð kr. 70.000,-. 
Samþykkt að veita HSÞ umræddann styrk.  Greiðslu styrksins vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.

9. Erindi frá Brynhildi Jónu Helgadóttur dags. 13. júní 2007.
Er hún að sækja um leyfi til að byggja bílskúr að Miðgörðum 8 á Grenivík.  Samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu. 

10.  Leiguíbúðir.
Rætt um fyrirkomulag á málningu við flutninga í og úr leiguíbúðum hreppsins.  Samþykkt að stofna hússjóð leiguíbúða hreppsins, ákvæði þar um verði sett inn í alla nýja leigusamninga og bætt í gömlu leigusamningana þannig að allir verði byrjaðir að borga í hússjóð um næstu áramót.  Samþykkt að greiðsla í hússjóð verði kr. 5000 á íbúð miðað við neysluverðsvísitölu 1. júlí 2007.  Við þessar breytingar falla úr gildi kvaðir um að leigjendur þurfi að skila íbúðum nýmáluðum.

11. Öldrunarsamningur.
Farið yfir tölvubréf frá Karli Guðmundssyni bæjarritara á Akureyri varðandi samning um öldrunarmál við Akureyrarbæ.  Bréfið lagt fram og ræddar hugsanlegar leiðir í þessum málum.  Ljóst er að kanna þarf málin betur.  Afgreiðslu frestað.

12.  Ljósleiðari.
Rætt um kostnað við lagningu ljósleiðara í hreppnum. 

13.  Erindi frá Gunnlaugi Lútherssyni dags. 17. maí sl. 
Áður tekið fyrir 21. maí sl., sbr. lið 16 í fundargerð sveitarstjórnar.  Gunnlaugur er að óska eftir leyfi til að byggja port við verkstæði sitt við Lundsbraut 4a.  Sveitarstjórn samþykkir að vísa erindinu til byggingarfulltrúa Eyjafjarðar.

14.  Bréf frá Héraðsnefnd Eyjafjarðar dags. 11. júní 2007.
Er verið að leita eftir samþykki Grýtubakkahrepps um að leggja niður Sorpeyðingu Eyjafjarðar bs. enda taki Flokkun ehf. við starfsemi SE bs.  Sveitarstjórn samþykkir tillöguna.

15.  Landbóta- og landnýtingaráætlun 2005-2010.
Áætlunin er ein af forsendum þess að sauðfjárbændur fái vottorð um gæðastýrða sauðfjárrækt.  Sveitarstjórn samþykkir áætlunina.

16.  Erindi frá Bergvin Jóhannssyni dags. 15. maí 2007.
Er hann að biðja um leyfi fyrir lóð undir  frístundahús í landi Áshóls.  Sveitarstjórn samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

17.  Erindi frá skólastjóra Grenivíkurskóla dags. 14. júní 2007. Efni: Stuðningskennsla og skólavistun við Grenivíkurskóla skólaárið 2007-2008. 
Ljóst er bæta þarf við starfsmanni í skólann vegna aukinnar stuðningskennslu.  Sveitarstjórn veitir skólastjóra heimild til ráðningar starfsmanns til þessa enda feli ráðningin ekki í sér kostnaðarauka fyrir sveitafélagið.

18.  Bréf frá Hestaíþróttafélaginu Þráni dags. 14. júní 2007.
Er verið að óska eftir svari við bréfi frá 20. febrúar 2006 varðandi gerð reiðvegar frá enda núverandi reiðvegar vestur á Skælu.  Reiðvegurinn er ekki á fjárhagsáætlun þetta árið.  Jafnframt þarf sveitarstjórn að fá nánari skýringar á því hvert markmið veglagningarinnar sé.  Erindinu því frestað.

19. Önnur mál.
Engin.

Fleira ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 20.00.