Sveitarstjórn

22.01.2007 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 129

Mánudaginn 22. janúar 2007 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps.  Allir hreppsnefndarmenn mættir að Jóni Helga Péturssyni undanskildum en Jenný Jóakimsdóttir sat fundinn í hans stað.  Sveitarstjóri sat einnig fundinn.  Fundurinn hófst kl. 17:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Fundargerð Heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra frá 10. janúar 2007.
Lögð fram.

2. Fundargerð stjórnar Eyþings frá 5. janúar 2007.
Lögð fram.

3. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 15. janúar 2007.
Kynning á dagskrá Brännpunkt Norden, norrænu skólamálaráðstefnunnar sem haldin verður 10. og 11. maí 2007 á Hótel Nordica.  Samþykkt að vísa þessu erindi til fræðslu- og æskulýðsnefndar.

4. Samningur við Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi.
Markaðsskrifstofan fer þess á leit við sveitarstjórn að samningur við Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi (MFN) verði endurnýjaður.  Sveitarstjórn samþykkir að endurnýja umræddan þjónustusamning.

5. Tölvupóstur frá Jóni Helga Péturssyni dags. 8. janúar 2007. 
Jón Helgi óskar eftir því fyrir hönd Bríetar Þorsteinsdóttur og Gunnars Egils Þórissonar að fá úthlutað vestustu lóðinni við Ægissíðu til byggingar íbúðarhúss.  Þeim hefur áður verið úthlutað næstu lóð austan við þá sem nú er sótt um og falla þá frá þeirri lóð ef hægt verður að verða við ósk þessari.  Sveitarstjórn samþykkir að úthluta Bríeti og Gunnari Agli vestustu lóðinni við Ægissíðu, með fyrirvara um skipulagsvinnu. 
 
6. Sala á félagslegum íbúðum Grýtubakkahrepps.
Samþykkt að auglýsa eftirtaldar íbúðir Grýtubakkahrepps til sölu; Túngötu 11b), Lækjarvelli 2 og Lækjarvelli 4.                    

7. Drög að skipulagsskrá fyrir útgerðarminjasafn á Grenivík.
Farið yfir athugasemdir við skipulagsskrána og ákveðið að fela sveitarstjóra að halda áfram að vinna hana.  Leitað hefur verið til ýmissa aðila um að verða stofnaðilar útgerðarminjasafnsins og hafa viðbrögð verið jákvæð.

8. Drög að samkomulagi við íþróttafélagið Magna.
Lögð fram drög að nýjum þriggja ára samningi við Magna.  Drögin rædd og samþykkt með lítilsháttar orðalagsbreytingum.

9. Drög að landamerkjabréfi fyrir Hól í Þorgeirsfirði og Látur á Látraströnd.
Sveitarstjórn felur Ástu að ganga betur frá lýsingunum svo hægt sé að þinglýsa þeim.

10. Þjóðlendurnar.
Sveitarstjórn samþykkir að fá aðstoð við að svara kröfum fjármálaráðherra í lönd Grýtubakkahrepps.  Er þetta gert að beiðni lögfræðings hreppsins.
Sveitarstjórn samþykkir að vera stofnaðili Landssamtaka landeigenda sem berjast fyrir réttindum landeigenda í þjóðlendumálum.  

11. Bréf frá Jóhanni Skírnissyni, Skírni Jónssyni og Arnóri Erlingssyni dags. 28. desember 2006.
Fyrir hönd landeigenda Skarðs í Grýtubakkahreppi óskar Jóhann Skírnisson eftir því að vegslóði landeigenda sem liggur frá Ekjugili á Flateyjardal upp að Útburðartjörn á Skarðsdal verði skráður.  Sveitarstjórn samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

12. Bréf frá Hörgárbyggð dags. 12. janúar 2007.
Hörgárbyggð leitar til sveitarfélaga í Eyjafirði um framlag til Gásaverkefnisins á árinu 2007.  Í Gásaverkefninu felst m.a. að kynna þær merku minjar sem á Gáseyri eru og byrja á aðstöðusköpun fyrir gesti, í því skyni að treysta orðstír staðarins sem ferðamannastaðar.
Sveitarstjórn sér sér ekki fært að verða við þessum óskum Hörárbyggðar að svo stöddu, þar sem Grýtubakkahreppur hefur í hyggju að vinna að útgerðarminjasafni á Grenivík árið 2007.

13.  Endurbygging á Látrum.
Lagðar fram teikningar að nýjum skála.  Sveitarstjórn lýsir ánægju sinni með fyrirætlanir Ferðafélagsins Fjörðungs og setur sig ekki á móti fyrirhugaðri  húsgerð.    

14. Þriggja ára áætlun Grýtubakkahrepps 2008-2010.
Fyrri umræðu lokið

15. Önnur mál.
Engin.
                             
Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 19.15.