Sveitarstjórn

27.11.2006 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 125

Mánudaginn 27. nóvember 2006 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps.  Allir hreppsnefndarmenn mættir nema Jóhann Ingólfsson.  Í hans stað sat Margrét Ösp Stefánsdóttir fundinn.  Einnig sat sveitarstjóri fundinn.  Fundurinn hófst kl. 17:00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Fundargerð Heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra frá 8. nóvember 2006. 
Lagt fram.

2. Fundargerð bókasafnsnefndar frá 31. október 2006. 
Fundargerðin samþykkt.

3. Bréf frá menntamálaráðuneytinu dags. 10. nóvember 2006. 
Efni:  Tillögur nefndar um fjölgun nemenda í raunvísindum og raungreinum.  Í tillögum nefndarinnar er m.a. lagt til að allir grunnskólar geri formlegt mat á stöðu sinni í kennslu náttúruvísinda fyrir árslok 2006.  Erindinu vísað til skólastjóra.

4. Tölvupóstur frá Íslandsmiðli ehf. dags. 13. nóvember 2006. 
Efni:  Beiðni um styrk. Er Íslandsmiðill að óska eftir styrk að upphæð kr. 500.000,- frá Grýtubakkahreppi til að koma upp tveimur endurvörpum fyrir sjónvarpsmiðlunina VAL +.  Samþykkt að óska eftir frekari kynningu frá Íslandsmiðli á því sem verið er að bjóða.

5. Tölvupóstur frá Vímulausri æsku dags. 8. nóvember 2006. 
Efni:  Ósk um stuðning.
Samþykkt að veita styrk að upphæð kr. 10.000- sem greiðist á árinu 2007. Jafnframt samþykkt að áframsenda tölvupóstinn til áfengis- og vímuvarnanefndar, en í honum kemur fram að boðið er upp á að halda námskeið tengd forvörnum.

6. Bréf frá umhverfisráðuneytinu dags. 3. nóvember 2006. 
Efni:  Salernisaðstaða og þjónustuhús í landi Borgargerðis.  Bréfið er vegna erindis sem tekið var fyrir 22. maí 2006 frá Benedikt Sveinssyni og Krístínu B. Sigurðardóttur. Þar sem ráðuneytinu er ekki heimilt að veita undanþágu frá lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og reglugerð um hættumat vegna ofanflóða hafnar ráðuneytið erindinu.  Í ljósi niðurstöðu ráðuneytisins getur sveitarstjórn ekki heimilað bygginguna fyrir sitt leyti.

7. Bréf frá Sigmundi Ófeigssyni framkvæmdastjóra Norðlenska, dags. 3. nóvember 2006. 
Efni:  Jarðgerðarstöð fyrir lífrænan úrgang. Fyrirhugað er að stofna hlutafélag um byggingu og rekstur jarðgerðarstöðvar, sem gæti orðið tilbúin til rekstrar haustið 2007. Óskað er eftir að sveitarfélagið lýsi því yfir að það sé reiðubúið að beina a.m.k. meiri hluta þess lífræna úrgangs sem til fellur í sveitarfélaginu til jargerðarstöðvarinnar, a.m.k. næstu 8-10 árin.  Jafnframt er óskað eftir afstöðu sveitarfélagsins til beinnar aðildar að hlutafélaginu með kaupum á hlutafé í því.  Sveitarstjórn lýsir vilja sínum til að beina a.m.k. meiri hluta lífræns úrgangs sem til fellur í sveitarfélaginu til væntanlegrar jarðgerðarstöðvar.  Jafnframt lýsir sveitarstjórn áhuga sínum á því að kaupa hlutafé í væntanlegu fyrirtæki um jarðgerðarstöð gegnum dótturfélag hreppsins.

8. Bréf frá Bergvin Jóhannssyni, Áshóli, dags. 11. nóvember 2006. 
Efni:  Óskað er eftir umsögn sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps um að byggð verði þrjú frístundahús í landi Áshóls í Grýtubakkahreppi.
Sveitarstjórn samþykkir erindið fyrir sitt leyti með fyrirvara um skipulagsvinnu.

9. Bréf frá Hestamannafélaginu Þráni dags. 20. nóvember 2006. 
Efni:  Umsókn um lóð fyrir reiðskemmu ofan Kaplaskjóls 5 á Grenivík.  Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið en frestar endanlegri afgreiðslu þar til skipulagsvinnu á svæðinu er lokið.

10. Fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra 2007. 
Samþykkt að óska eftir frekari upplýsingum varðandi breytingar frá yfirstandandi ári.  Afgreiðslu frestað.

11. Þjóðlendukröfur ríkisins.
a. Bréf frá Óbyggðanefnd dags. 6. nóvember 2006. 

Þar kemur fram m.a. að þjóðlendunefnd fyrir hönd ríkisins gerir kröfu til hluta Leirdalsheiðar, Lambárstykkis, Leirdals, Trölladals, Jórunnarstaðarafréttar og Gilsafréttar, auk nyrsta hluta Látrastrandar.
b. Bréf frá Lögmönnum Suðurlandi dags. 13. nóvember 2006. 
Þar er lögmannsstofan að bjóða fram þjónustu sína vegna krafna þjóðlendunefndar.
Sveitarstjórn fordæmir þau vinnubrögð sem fjármálaráðherra viðhefur fyrir hönd ríkisins, þar sem ekkert tillit er tekið til þinglýstra landamerkjalýsinga við kröfugerð.  Sveitarstjórn beinir þeim tilmælum til fjármálaráðherra að hann afturkalli kröfur sínar og virði eignarrétt landeigenda.  Sveitarstjóra falið að koma mótmælum sveitarstjórnar á framfæri við fjármálaráðherra.
Samþykkt að ráða lögmannsstofuna Lögmenn Suðurlandi til að gæta hagsmuna Grýtubakkahrepps varðandi þjóðlendukröfur ríkisins.

12. Fjárhagsáætlun Grýtubakkahrepps 2007, fyrri umræða. 
Fyrri umræðu lokið.

13. Bréf frá Skipulagsstofnun dags. 20. nóvember 2006. 
Efni:  Sjókvíaeldi á laxi fyrir utan Ystuvík, Grýtubakkahreppi í Eyjafirði.  Tilkynning um matsskyldu en Íslandslax hf. hyggst setja þar upp sjókvíaeldi.  Afgreiðslu frestað.

 Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
 Fundi slitið kl. 21:10.