Sveitarstjórn

18.09.2006 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 121

Mánudaginn 18. september 2006 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps.  Allir hreppsnefndarmenn mættir nema Jóhann Ingólfsson en í hans stað sat Margrét Ösp Stefánsdóttir fundinn.  Einnig sat sveitarstjóri fundinn.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Fundargerð félagsmálanefndar Grýtubakkahrepps frá 7. júní 2006. 
Fundargerðin samþykkt.

2. Bréf frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra dags. 31. ágúst 2006.
Bréfið fjallar um athugun á stöðu sveitarfélaga varðandi endurgerð leiksvæða, rekstrarskoðun og aðalskoðun á leiksvæðum barna.  Afgreiðslu frestað.

3. Bréf frá Reykjavíkurborg dags. 29. ágúst 2006.
Er verið að fara fram á námsvist fyrir Kára Walter Margrétarson í Grenivíkurskóla skólaárið 2006-2007.  Samþykkt að veita Kára skólavist með fyrirvara um að Reykjavíkurborg greiði kostnað við skólaakstur, auk kostnaðar við skólagöngu.

4. Bréf frá Bjarna Hjarðar, Stefáni Jóhannessyni og Jónasi Steingrímssyni dags. 30. ágúst 2006.
Eru þeir væntanlegir lóðarhafar í frístundabyggðinni Sunnuhlíð.  Gera þeir ýmsar athugasemdir við lóðaleigusamning og deiliskipulagsskilmála.  Sveitarstjórn fellst á ósk þess efnis að þriggja ára byggingarfrestur telji frá 01.06.2007, hið fyrsta.  Varðandi skiptingu á greiðslu vegna lóðar, getur sveitarstjórn ekki fallist á ósk viðkomandi, þar sem frá upphafi var ljóst að greiðslu yrði að inna af hendi fyrir undirritun lóðaleigusamnings.  Hvað varðar athugasemdir við byggingarskilmála, er viðkomandi bent á að gert er ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika hvað varðar húsgerð í skilmálunum.  Að endingu varðandi ágalla á framsetningu lóðaleigusamnings, fellst sveitarstjórn á smávægilegar breytingar.

5. Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðar dags. 12. september 2006.
Í lið nr. 1 er Kristinn Örn Jónsson að sækja um leyfi fyrir sumarhúsi á lóð nr. 8 í frístundabyggðinni Sunnuhlíð.  Fundargerðin lögð fram og liður nr. 1 samþykktur.

6. Samanburður á skólakostnaði milli sveitarfélaga. 
Lagt fram.

7. Drög að lóðaleigusamningi fyrir Golfklúbbinn Hvamm. 
Lögð fram drög að lóðaleigusamningi.  Ljóst er að sameina þarf jarðirnar Árbæ og Hvamm áður en hægt er að gera slíkan samning.  Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að vinna málinu framgang.  Jón Helgi vék af fundi meðan þessi liður var ræddur.

8. Minnispunktar frá Fjólu Stefánsdóttur varðandi fund um förgun úrgangs. 
Fundurinn var haldinn í Árskógsskóla 13. september 2006. Lagt fram og rætt ítarlega.

9. Bréf frá Fjörðungum ehf. dags. 15.09.2006.
Sækja þeir um að fá land sem Grýtubakkahreppur keypti í Hvammi (Hvammsheiðina) til leigu fyrir rjúpnaveiði árið 2006.  Sveitarstjórn samþykkir að leigja framangreint land fyrir rjúpnaveiði árið 2006.  Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa eftir tilboðum í leigu landsins og bendir Fjörðungum ehf. á að þeir eigi kost á að gera tilboð að undangenginni slíkri auglýsingu.  Sveitarstjórn áskilur sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum. Guðný vék af fundi meðan þessi liður var ræddur.

10. Áfengisvarnarnefnd. 
Farið yfir verksvið nefndarinnar.

11. Reglur um hunda- og kattahald í Grýtubakkahreppi. 
Sveitarstjóra falið að gera tillögur að samræmdum reglum um hunda- og kattahald.  Samþykkt að gjald vegna hunda og katta haldist óbreytt, kr. 1.800-, en hækki í kr. 3.000- eftir 15. október ár hvert, hafi gjaldið ekki verið greitt fyrir þann tíma.

12. Endurskoðun á Svæðisskipulagi. 
Sveitarstjórn mælir með því að ráðist verði í endurskoðun á svæðisskipulagi Eyjafjarðar með það að markmiði að einfalda skipulagið og fækka þáttum sem svæðisskipulagið tekur til.

13. Önnur mál.
Engin.
 
Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 20:15.