Sveitarstjórn

08.05.2006 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 115

Mánudaginn 8.maí 2006 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps.  Allir hreppsnefndarmenn mættir ásamt sveitarstjóra.  Fundurinn hófst kl. 17,00.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Ársreikningur Grýtubakkahrepps fyrir árið 2005, seinni umræða.
Helstu niðurstöðutölur eru eftirfarandi:
                                                   Sveitarsjóður Samstæða
Rekstrartekjur                       161.224.000,- 196.276.000,-
Rekstrargjöld                        161.877.000,- 193.164.000,-
Fjárm.t. og fjárm.gj.                   1.301.000,-   (7.524.000,-)
Rekstrarniðurst. ársins               648.000,-   (4.412.000,-)
Síðari umræðu lokið og reikningurinn samþykktur.

2. Aðalfundur Hafnasamlags Norðurlands 17. maí 2006.
Samþykkt að sveitarstjóri fari með atkvæði Grýtubakkahrepps á fundinum.

3. Bréf frá Valdimar Víðissyni skólastjóra dags. 28. apríl 2006. 
Eldri nemendur Grenivíkurskóla hafa séð um gæslu í hádeginu ásamt skólaliðum.  Hafa þeir unnið 39 klst. síðan þeir byrjuðu á þessu verkefni.  Samþykkt að veita nemendunum styrk að upphæð kr. 30.000- fyrir þá vinnu sem þau hafa innt af hendi.

4. Bréf frá Ingu Maríu Sigurbjörnsdóttur dags. 28. apríl 2006.
Er hún að fara fram á að fá greidd laun sem grunnskólakennari nú í vor þegar námi lýkur en ekki í ágúst nk.  Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga á Inga María rétt á að fá greidd laun sem grunnskólakennari frá og með næstu mánaðamótum eftir að hún hefur framvísað gögnum um að hún hafi fullgild réttindi, en ekki er miðað við upphaf skólaárs.  Sveitarstjóra er falið að koma þeim upplýsingum á framfæri við Ingu Maríu.

5. Bréf frá Gunnlaugi Lútherssyni, ódagsett.
Er hann að sækja um leyfi til að byggja bílskúr austan Sæborgar en hann hefur hug á að kaupa húsið.  Einnig sækir hann um leyfi til að byggja verkstæðishús á Grenivík og að reka verkstæði fyrstu fjögur árin í bílskúr við Sæborg.  Varðandi leyfi til byggingar bílskúrs, hefur sveitarstjórn ekki sett sig upp á móti slíkum byggingum við íbúðarhús, en ákvörðun um leyfi verður ekki tekin nema að undangengnu hefðbundnu skipulagsferli.  Sama gildir um leyfi til að byggja verkstæðishús á Grenivík.  Hvað varðar leyfi til að reka verkstæði í bílskúr í íbúðarhverfi, þykir sveitarstjórn einboðið að slíkt leyfi verði ekki veitt.

6. Breyting á deiliskipulagi í Laufási.
Breytingin hefur farið í grenndarkynningu hjá íbúum í Laufási, Þjóðminjasafninu og Prestsetrasjóði og hafa allir svarað breytingunni jákvætt.  Sveitarstjórn samþykkir breytingu á deiliskipulagi, sbr. bókun sveitarstjórnar á fundi 20. febrúar 2006.  Benedikt vék af fundi meðan þessi liður var ræddur, en fyrir liggur að fyrirtæki á hans vegum muni byggja umrædda byggingu.

7. Reykjaveita. 
Sveitarstjórn samþykkir að óska eftir því að Grýtubakkahreppur eða Sænes ehf. kaupi hlutafé í Norðurorku hf. fyrir allt að 30 m.kr. að því gefnu að lögð verði hitaveita til Grenivíkur.  Jafnframt óskar sveitarstjórn eftir því að gengið verði frá samningi þess efnis fyrir sveitarstjórnarkosningar, sem fram fara 27. maí nk.

8. Frístundabyggðin Sunnuhlíð. 
Samþykkt að úthluta Birgi Péturssyni lóðinni Sunnuhlíð 1 og Sævari Helgasyni lóðinni Sunnuhlíð 14, með fyrirvara um að eftir eigi að gera fornleifaúttekt á umræddum lóðum og endanlegt samþykki Skipulagsstofnunar.  Sveitarstjórn hefur áður tekið jákvætt í að veita fyrrgreindum aðilum umræddar lóðir.

9. Brunavarnaáætlun fyrir starfssvæði Slökkviliðs Grýtubakkahrepps. 
Slökkviliðsstjóri, Guðni Sigþórsson, kom á fundinn og kynnti skýrsluna.  Aðeins er eftir að gera smávægilegar viðbætur á skýrslunni og verður endanleg skýrsla lögð fram til samþykktar í sveitastjórn á næsta fundi sveitarstjórnar.

10. Fundargerð byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 25. apríl 2006. 
Lagt fram.

11. Umsókn um stöðu leikskólastjóra á Krummafæti frá Sonju Kro.
Staðan var auglýst til eins árs og er Sonja eini umsækjandinn.  Samþykkt að leita eftir umsögn skólanefndar leikskóla.

12. Önnur mál.
Engin.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 19:25.