Sveitarstjórn

25.04.2006 00:00

Hreppsnefndarfundur nr. 114

Þriðjudaginn 25. apríl 2006 kom hreppsnefnd Grýtubakkahrepps saman til fundar á skrifstofu Grýtubakkahrepps.  Allir hreppsnefndarmenn mættir ásamt sveitarstjóra.

Gjörðir fundarins voru þessar:

1. Ársreikningur Grýtubakkahrepps fyrir 2005, fyrri umræða. 
Fyrri umræðu lokið.

2. Bréf frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar dags. 10.04.2006.  Málefni:  Ráðning fagslærðs starfskrafts v/skipulagsgerðar. 
Málið rætt en afgreiðslu frestað.

3. Öldrunarmál. 
Rætt um samning við Akureyrarbæ um öldrunarmál.

4. Kosning tveggja aðalmanna og tveggja varamanna í stjórn Sparisjóðs Höfðhverfinga til eins árs.  Samþykkt að tilnefna Ara Laxdal og Jón Þorsteinsson sem aðalmenn og Svein Sigurbjörnsson og Sólveigu Jónsdóttur sem varamenn.  Jafnframt samþykkt að sveitarstjóri fari með atkvæði fyrir hönd Grýtubakkahrepps á fundinum eða Jenný Jóakimsdóttir í hennar stað.

5. Fundargerð Heilbrigðisnefndar Norðurlandssvæðis eystra frá 10. apríl 2006. 
Lagt fram.

6. Bréf frá Arnari Sigfússyni hdl., krafa um endurupptöku máls. 
Í bréfinu fer Arnar fram á, fyrir hönd umbjóðanda síns Kristins Ásmundssonar, að sveitarstjórn afturkalli ákvörðun sína frá 3. apríl sl. um að veita ekki leyfi til byggingar heyhlöðu í Höfða I og taki málið upp að nýju, þar sem sveitarstjórn veitti umræddum aðila ekki andmælarétt varðandi þær athugasemdir sem fram komu í kjölfar grenndarkynningar.  Sveitarstjórn samþykkir beiðnina og fellir þar með úr gildi umrædda ákvörðun og veitir Kristni frest til kl. 12:00 þann 18. maí nk. til að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna málsins.  Sveitarstjórn mun taka fyrir málið að nýju þegar athugasemdir hafa borist eða í síðasta lagi að framangreindum fresti liðnum.

7. Frumvarp til laga um lax- og silungsveiði. 
Lagðar voru fram athugasemdir við frumvarpið frá stjórn Félags eigenda sjávarjarða við austanverðan Eyjafjörð.  Sveitarstjórn tekur undir þær athugasemdir sem þar fram koma.

8. Bréf frá Hólmfríði Árnadóttur og Regínu Ómarsdóttur dags. 10.04.2006.  Málefni:  Beiðni um ársleyfi frá störfum. 
Sveitarstjórn samþykkir að verða við beiðninni.  Jenný vék af fundi meðan þessi liður var ræddur.

9. Drög að gjafaafsali fyrir slysavarnaskýlin. 
Ekki voru gerðar athugasemdir við drögin og sveitarstjóra falið að ræða við forsvarsmenn Björgunarsveitarinnar Ægis.

10. Bréf frá Fiskeldi Eyjafjarðar hf. dags. 11. apríl 2006.  Málefni:  Ýmsar upplýsingar til hluthafa. 
Lagt fram.

11. Bréf frá Héraðsnefnd Eyjafjarðar dags. 18. apríl 2006.  Málefni: Veganefnd. 
Lagt fram.  Samþykkt að senda dreifibréf í sveitarfélagið þar sem því er komið á framfæri að frestur til að koma erindi til veganefndar sé til 3. maí nk.

12. Deiliskipulag fyrir frístundabyggðina Sunnuhlíð. 
Frestur til að koma á framfæri athugasemdum við deiliskipulagið er liðinn og bárust engar athugasemdir.  Einnig komu engar athugasemdir fram varðandi breytingar á svæðisskipulagi vegna frístundarbyggðarinnar.  Sveitarstjórn samþykkir svæðisskipulagið og felur sveitarstjóra að senda það til Skipulagsstofnunar.

13. Lausaganga búfjár. 
Samþykkt að senda erindi til Vegagerðar ríkisins þar sem óskað er eftir samningi um að lausaganga búfjár verði bönnuð á Grenivíkurvegi gegn því að Vegagerðin girði meðfram veginum og viðhaldið þeirri girðingu.

14. Tillaga að deiliskipulagi við Ægissíðu á Grenivík. 
Samþykkt að auglýsa skipulagið.

15. Önnur mál.
Engin. 

Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið kl. 20:30.